143. löggjafarþing — 100. fundur,  29. apr. 2014.

veiðigjöld.

568. mál
[22:02]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ef ég tala fyrst um hv. fjárlaganefnd er það skylda fjármálaráðherra að láta fjárlaganefnd vita eða vara hana við þegar svona miklar breytingar verða á einu bretti á fjárlögum eins og fyrirsjáanlegt er með þessu frumvarpi. 1 milljarður — við vorum að slást um lægri upphæðir hér í desember þannig að þetta er mikil breyting og getur haft miklar afleiðingar. Afgangur á hallalausu fjárlögunum er 900 milljónir. Við verðum því komin niður fyrir núllið ef aðrar stærðir breytast ekki á móti, en sjálfsagt er hægt að finna leiðir til þess. Ein var rædd hér í gær, með því að breyta ekki viðmiðunum fyrir barnabætur er náttúrlega hægt að ná upp í þennan afslátt á veiðigjöldunum þannig að sú upphæð sem ætluð er til barnabóta skili sér ekki til barnafjölskyldna. En það er önnur saga.

Það vantar rök fyrir lækkun gjaldanna. Það vantar tölulegar upplýsingar á bak við það. Að þessu leyti er frumvarpið rýrt. Hins vegar hlýtur hv. atvinnuveganefnd að kalla eftir því og við höfum fengið að heyra það hér í dag að nýjar tölur komi og menn hafa fagnað því að hægt sé að fara eftir tölum fyrir árið 2013. Síðasta ár var miðað við árið 2011. Árið 2012 var metár í sjávarútvegi. Núna eru menn að finna út úr því hvernig í ósköpunum þeir geti komist hjá því að taka tillit til þeirra talna og bíða eftir nýjum tölum fyrir árið 2013, sem nefndin ætlar að vinna með.