143. löggjafarþing — 100. fundur,  29. apr. 2014.

veiðigjöld.

568. mál
[22:06]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Í þessu litla og að því er virðist sakleysislega frumvarpi er náttúrlega verið að umbylta hugmyndinni á bak við útreikninginn á veiðigjöldunum. Það er búið að skemma hugsunina um umframarðinn og hlutdeild í honum. Mér finnst að það eigi að hugsa um veiðigjaldið eins og hver önnur aðföng. Það þarf að kaupa veiðarfæri og bát, svo þarf að kaupa veiðigjald. Auðvitað er hægt að setja þar inn afslátt fyrir minni fyrirtæki eins og gert hefur verið o.s.frv.

Þetta er algjörlega hugsað út frá fyrirtækjunum sjálfum. Þau geta tekið skuldir sem þau hafa stofnað til, ef ég skil þetta rétt, í einhverju allt öðru en fiskveiðum og dregið þær frá áður en veiðigjaldið, sem er arður af auðlind þjóðarinnar og á að renna í ríkissjóð fyrir hönd þjóðarinnar, er reiknað.

Virðulegi forseti. Hvaða rugl er þetta eiginlega? Hvaða grunnprinsipp eru að baki þessu frumvarpi og því sem hæstv. ráðherra boðar, að það eigi að vera grunngjald og síðan skattur sem ráðist af stöðu hvers fyrirtækis fyrir sig? Þar með er prinsippið um að kaupa veiðileyfi eins og hver önnur aðföng dottið út og öll hugsun að baki þessu til að tryggja að þjóðin fái arð af auðlind sinni er horfin út um buskann. Þetta er bara áfangi á þeirri leið.