143. löggjafarþing — 100. fundur,  29. apr. 2014.

veiðigjöld.

568. mál
[22:26]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ef ég sný mér fyrst að seinna atriðinu sem hv. þingmaður talaði um er það náttúrlega lýsandi dæmi um hvernig það er þegar verið er að selja aflaheimildirnar. Einkaaðilar eru núna að selja frá sér kvóta og geta selt hann á háu verði og þegar þessi tonn koma til viðbótar þá streyma peningarnir auðsjáanlega inn. Ég vona að menn hafi ekki allir byrjað á því að selja þetta fólki sem var verr statt en þeir og hafði ekki nóg af aflaheimildum, ég vona að svo hafi ekki verið. En auðvitað er í rauninni verið að útdeila fjármunum þegar fisktonni er útdeilt til einhvers sem getur selt það öðrum, það er bara verið að rétta honum seðlabúnt, það má orða það svo.

Hvað varðar aðrar auðlindir var farið yfir það í dag til dæmis hvernig heita vatnið er notað og hvernig eru núna komnir nýir útreikningar á því hvað við högnumst mikið á því að geta notað heitt vatn til að hita húsin og þurfum ekki að kaupa olíu eða rafmagn í staðinn. Það fer eftir aðstæðum hverju sinni. Ég er á því að við seljum orkuna allt of ódýrt. Það hefur verið pólitísk ákvörðun að selja til stóriðju á lágu verði og virkja og virkja af því að við teljum okkur hafa (Forseti hringir.) haft hag af því. Það var pólitísk ákvörðun og það hafa verið teknar pólitískar ákvarðanir.