143. löggjafarþing — 100. fundur,  29. apr. 2014.

veiðigjöld.

568. mál
[22:29]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Já, maður veltir fyrir sér auðlindum okkar í þessu samhengi og hvað sé öðruvísi með sjávarauðlindir okkar. Heita vatnið er nýtt að hluta til niðurgreitt fyrir okkur sjálf og nýtt í samfélagslegum tilgangi, þannig að við sem þjóð getum nýtt það á þessu verði frekar en að farið sé með það á markað og það boðið út og svo keyptu undir þeim formerkjum aftur til okkar.

Ég vil spyrja hv. þingmann hvernig hún sjái fyrir sér byggðalegar og félagslegar aðgerðir í því samhengi að auðlindin sé sameign þjóðarinnar, og kannski í ljósi erfiðleika margra sjávarbyggða sem hafa verið að berjast í bökkum vegna þessa kvótakerfis sem hefur leikið margar byggðir grátt.

Síðan langar mig að heyra í hv. þingmanni varðandi tekjutap ríkissjóðs miðað við þær áætlanir um að greinin gæti skilað meiri tekjum í þjóðarbúið en lagt er til hér. Hvernig sér hún fyrir sér að það muni þróast ef útgerðinni verður áfram hlíft á þennan hátt? Þá er ég að tala um stórútgerðina af því að ekki virðist vera tekið neitt tillit til minni útgerða og útgerðarforma jafnvel þótt þetta eigi að vera í þágu þeirra þegar talað er háfleygt um þessi mál, það er ekki tekið neitt á því í frumvarpinu. Mig langar að heyra hvernig hún telur að staða ríkissjóðs verði í framhaldinu miðað við öll þau verkefni sem bíða okkar, ef halda á áfram að sleppa þessum útgerðum við að greiða eðlilega auðlindarentu miðað við tekjur sínar.