143. löggjafarþing — 100. fundur,  29. apr. 2014.

veiðigjöld.

568. mál
[22:33]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðu hennar. Nú sitjum við hv. þingmaður saman í stjórnarskrárnefnd og forgangsverkefni þeirrar nefndar hefur verið að fjalla um þau ákvæði sem hlutu afgerandi stuðning í þjóðaratkvæðagreiðslu hér haustið 2012, þ.e. auðlindaákvæðið og ákvæðið um beint lýðræði.

Mig langar að ræða aðeins við hv. þingmann í ljósi þess að veiðigjaldaumræðan tengist því auðvitað hvernig við lítum á auðlindirnar. Það kom mjög skýrt fram í máli hv. þingmanns að hún lítur á það sem ákveðna undirstöðu þess að við lítum á auðlindirnar sem sameign þjóðarinnar að þjóðin njóti að einhverju leyti rentunnar af auðlindunum. Síðan getum við rökrætt um það hvaða leiðir eru bestar til þess.

Nú er það svo að í lögum um stjórn fiskveiða hefur lengi staðið að sjávarauðlindin, fiskurinn, sé sameign íslensku þjóðarinnar, að það skapist ekki óbeinn eignarréttur þó að menn fái að nýta þá auðlind. Þá fer maður að velta því fyrir sér hverju nákvæmlega svona ákvæði skipta. Mig langar að fá sýn hv. þingmanns á það, hvort hún telji mikilvægt að auðlindaákvæðið fari á einhvern hátt inn í stjórnarskrá Íslands, hvort hún telji að það styðji við þá hugsun að almenningur njóti rentunnar af auðlindinni, hvernig sem það er svo útfært, og hvort hún telji það lagaákvæði sem nú er í lögum um stjórn fiskveiða kannski ekki fullnægjandi til þess að sá skilningur sé uppi. Ég veit að þetta eru stór atriði en þau eru mjög mikilvæg þegar við ræðum um þessi mál, því að þetta er auðvitað grunnurinn að umræðunni um veiðigjöld.