143. löggjafarþing — 100. fundur,  29. apr. 2014.

veiðigjöld.

568. mál
[23:02]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Forseti. Í auðlindaumræðunni sem var hér í kringum árið 2000 komu fram ákveðin prinsipp. Það komu einnig fram ákveðin prinsipp í auðlindamálum hjá auðlindastefnunefnd á síðasta kjörtímabili og í tillögum að nýrri stjórnarskrá. Það er þessi sama hugsun sem gengur í gegnum þetta allt saman og reynt var að byggja lög um veiðigjöld á þeim prinsippum.

Núna er breytingin sú, svo ég noti svipað orðalag og hæstv. fjármálaráðherra gerði hér í gær, að einhvern veginn er verið að rífa allt saman úr samhengi og algert prinsippleysi er uppi. Það er búið að taka alla þessa umræðu og henda henni til hliðar. Nú á ekki að byggja á neinum prinsippum af þessu tagi heldur setja hér tekjuskatt þannig að sum fyrirtæki munu greiða þetta sérstaka veiðigjald í gegnum tekjuskattinn og önnur ekki. Það held ég að hljóti að vera langt frá því prinsippi sem auðlindaumræðan byggir á.

35 þúsund undirskriftir söfnuðust til að mótmæla bráðabirgðafrumvarpinu sem samþykkt var á síðasta ári, 35 þúsund manns mótmæltu því. Forsetinn skrifaði undir með þeim rökum að þetta væri bráðabirgðasamkomulag. Hvernig sér hv. þingmaður fyrir sér umræðuna í framhaldinu? Hæstv. sjávarútvegsráðherra talar um sátt um greinina — er líklegt að hún fáist með þessari þróun?