143. löggjafarþing — 100. fundur,  29. apr. 2014.

veiðigjöld.

568. mál
[23:09]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er náttúrlega þetta sem gerir að verkum að tugir þúsunda undirskrifta safnast til að mótmæla þeirri lækkun sem samþykkt var af stjórnarmeirihlutanum í sumar. Það er auðvitað af því að fólk upplifir ranglæti. Fólk upplifir ranglæti í því að hér séu mjög stórir aðilar í færum til að greiða sér svo mikinn arð og raun ber vitni. Eins og ég kom að áðan í ræðu minni var það mat okkar allra að eðlilegt væri að skoða framkvæmdina á innheimtu veiðigjaldsins með tilliti til smærri fyrirtækja en í raun og veru er ekki verið að gera það hér. Hér er bara flöt lækkun, annars vegar er verið að lækka gjaldið og hins vegar er verið að aftengja hugmyndafræðina um það að við eigum einhvern rétt á þessum umframarði. Það er það sem ég tel mjög alvarlegt við þetta mál.

Ég er sammála hv. þingmanni, þetta snýst nefnilega ekki bara um að stoppa í gatið hjá ríkissjóði. Ég legg þó áherslu á að það vekur mann til umhugsunar þegar grátið er yfir öðrum krónum sem þarf nauðsynlega að ná í, svo sem skráningargjöld á námsmenn og allt verður vitlaust út af til að ná í þær krónur, 180 milljónir, þá vekur þetta manni spurningar hvort sumar krónur telji einhvern veginn öðruvísi en aðrar. En þetta er stóra grundvallaratriðið og það er það sem við sjáum hjá þeim þjóðum sem hefur vegnað vel í þessum málum. Það eru þjóðir sem hafa haft mjög skýran ramma, skýrt regluverk og gjaldtöku, ég nefni sem dæmi frændur okkar Norðmenn og auðlindasjóð þeirra. Vissulega búa þeir að mjög ríkulegum auðlindum en þeir hika ekki við að leggja þar á rík gjöld og þeir hafa haft sambærilega stefnu um ýmsar aðrar auðlindir, þannig að þetta er auðvitað eitthvað sem við eigum að horfa til. Ég held að afregluvæðing, eins og hér hefur iðulega verið boðuð, það sé einhvern veginn það sem muni leysa alla þessa krafta úr læðingi og skapa vöxt og allt þetta, virki ekki. Við eigum einmitt að horfa til þess að hafa skýran ramma og jákvæða hvata til að atvinnulífið leggi af mörkum til samfélagsins út frá þeim réttindum sem það hefur.