143. löggjafarþing — 101. fundur,  30. apr. 2014.

lækkun væntingavísitölu.

[15:06]
Horfa

forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegi forseti. Væntingar fólks byggjast oft og tíðum á umræðunni, á því sem þeim er sagt. Ég óttast því að ræða eins og hv. þingmaður flutti hér sé ekki til þess fallin að skapa miklar jákvæðar væntingar hjá þeim tekjulægstu. Ef við hins vegar lítum á staðreyndirnar hafa þeir þrátt fyrir allt ástæðu til að gleðjast yfir því að hér sé komin ný ríkisstjórn vegna þess að nú er ójöfnuður á Íslandi minni en hann var nokkurn tímann á síðasta kjörtímabili. Hann hefur verið að þróast mjög í rétta átt. Augljóslega jókst jöfnuður við það að tekjuhæstu hóparnir misstu töluvert af tekjum sínum vegna bankahrunsins, en nú sjáum við áframhald á þeirri þróun í tíð þessarar ríkisstjórnar þar sem ójöfnuður er nú orðinn sá minnsti að minnsta kosti frá árinu 2005.

Ef við berum okkur saman við önnur lönd er hlutfall barnafátæktar það fjórða lægsta í heimi á Íslandi og Gini-stuðullinn margnefndi er með því sem best gerist í heiminum. Það þýðir ekki að menn geti leyft sér að vera værukærir. Svona árangur næst ekki nema menn gæti þess að bæta stöðugt kjör þeirra lægst launuðu og enn er allt of stór hópur í íslensku samfélagi sem býr við allt of lök kjör. Þessi ríkisstjórn mun einbeita sér að því að halda áfram að bæta þau kjör.

Reyndar bötnuðu kjör þeirra lægst launuðu alveg sérstaklega síðast þegar þessir tveir flokkar sem nú mynda ríkisstjórn, Framsóknarflokkur og Sjálfstæðisflokkur, voru við stjórnvölinn. Í 12 ár jókst kaupmáttur verkamanna á Íslandi, frá árinu 1995–2007, ár eftir ár eftir ár. Það er eina skiptið í Íslandssögunni sem hefur eingöngu verið kaupmáttaraukning ár eftir ár eftir ár.