143. löggjafarþing — 101. fundur,  30. apr. 2014.

lækkun væntingavísitölu.

[15:10]
Horfa

forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegi forseti. Í fyrsta lagi er rétt að geta þess að núverandi ríkisstjórn gerði engar breytingar á áformum síðustu ríkisstjórnar um auðlegðarskatt. Það er ekki heldur rétt sem hv. þingmaður heldur fram, að ég sé að setja út á það að hún taki þessi mál til umræðu. Þvert á mót tel ég mjög æskilegt að menn ræði sem mest um stöðu þeirra sem standa verst að vígi efnahagslega vegna þess að eingöngu með umræðu um vandann er hægt að leysa hann.

En það er ekki hægt að leysa vandann nema með því að nálgast hann út frá staðreyndum. Sem betur fer er staðreyndin sú að frá því að þessi ríkisstjórn tók við hefur dregið úr ójöfnuði á Íslandi. Það er sama hvaða mælikvarði er lagður á það. Þess vegna get ég svarað spurningu hv. þingmanns um markmið ríkisstjórnarinnar hvað þetta varðar á þann hátt að markmiðið er að sjálfsögðu að halda áfram að ná árangri við að draga úr ójöfnuði eins og ríkisstjórnin hefur gert á fyrsta ári sínu í embætti og sagan sýnir að það má ætla að verulegur árangur muni nást í því áfram. Því hafa menn ástæðu til að vera bjartsýnir.