143. löggjafarþing — 101. fundur,  30. apr. 2014.

réttur fatlaðs fólks til sjálfstæðs lífs.

[15:15]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf):

Virðulegur forseti. Ég hvet hæstv. ráðherra til dáða í þessu. Mér finnst algjörlega ástæðulaust að gera ráð fyrir að verkefnið þurfi að frestast. Verkefnisstjórn um notendastýrða persónulega aðstoð varði miklum tíma í undirbúningsvinnu og gagnaöflun og gerð handbókar um notendastýrða persónulega aðstoð og leiðbeinandi reglna um hvernig framkvæma skuli notendastýrða persónulega aðstoð á Íslandi og allt á það að nýtast til þess að gera frumvarp að lögum um innleiðingu á þessu þjónustuformi.

Síðan er núna komin upp undir ársreynsla á tugum samninga um notendastýrða persónulega aðstoð þannig að það á allt að nýtast líka. Ég sé ekki neinar forsendur fyrir einhverjum töfum í þessu máli. Það gleður mig að hæstv. ráðherra er sammála mér um það að hér er um mjög brýnt mannréttindamál að ræða. Stundum er talað um kostnað í þessu, að það kosti eitthvað sérstaklega mikið að fatlað fólk geti ráðið sér aðstoðarfólk. Við skulum horfa á ábatann í þessu líka, ég hvet ráðherrann til að gera það, að notendastýrð persónuleg aðstoð er ódýrasta leiðin (Forseti hringir.) til að ná sem mestum ábata, sjálfstæðu lífi í þjónustu við fatlað fólk.