143. löggjafarþing — 101. fundur,  30. apr. 2014.

lokun fiskvinnslunnar Vísis á Húsavík og Djúpavogi.

[15:18]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf):

Hæstv. forseti. Já, ég hef kosið að nota mér þennan dagskrárlið í þingstörfum til að spyrja hæstv. forsætisráðherra, sem jafnframt er 1. þingmaður Norðausturkjördæmis og ber þar með mikla ábyrgð, fer samkvæmt hefð í þingmannahópnum fyrir forustu um málefni kjördæmisins, um hina miklu vá, þá grafalvarlegu stöðu sem við stöndum frammi fyrir á Djúpavogi og Húsavík vegna uppsagna og lokunar fiskvinnslufyrirtækisins Vísis á Djúpavogi og Húsavík, og svo auðvitað á Þingeyri líka.

Á Djúpavogi stendur þetta þannig að 4 þús. tonna afli er að fara úr byggðarlaginu, úr vinnslu í fiskvinnsluhúsinu á þessum stað, og 50 manns eru að missa vinnuna. Sama er á Húsavík og jafnframt á Þingeyri. Það sem gerir stöðuna enn alvarlegri er það sem fyrirtækið boðar og segir í fréttatilkynningu, að það muni stuðla að og beita sér fyrir og liðka til fyrir flutningum allra þessara starfsmanna til Grindavíkur til að hefja þar störf og býður jafnframt peningalega aðstoð við þessi vistaskipti. Sveitarstjórnir þessara sveitarfélaga hafa fundað með okkur, þingmönnum kjördæmisins, sem hæstv. forsætisráðherra og margir stjórnarliðar hafa því miður ekki getað mætt á, eins og á fund sem haldinn var austur á landi þar sem aðeins einn stjórnarþingmaður mætti, sem er grafalvarlegt vegna þess að þar voru menn að ræða þessa stöðu.

Nú er liðinn einn mánuður frá því að þetta gerðist og fréttir berast um að flutningar séu að hefjast. Þess vegna langar mig að spyrja hæstv. forsætisráðherra um mótvægisaðgerðir vegna forsendubrestsins á þessum stöðum: Hvað ætlar hæstv. ríkisstjórn að gera í þessum málum? Hvað ætlar hv. 1. þingmaður Norðausturkjördæmis að gera í þessum málum? Hvaða tillögur hefur ríkisstjórnin fram að færa um úrlausnir? Og hvenær?