143. löggjafarþing — 101. fundur,  30. apr. 2014.

lokun fiskvinnslunnar Vísis á Húsavík og Djúpavogi.

[15:20]
Horfa

forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegur forseti. Ég tek undir það mat hv. þingmanns að staðan í þessum sveitarfélögum sem hann nefndi er mjög alvarleg og kallar á sértækar aðgerðir ef ekki tekst að leysa úr málum. Mér skilst reyndar að einhverjar viðræður standi enn yfir en ég hef, þrátt fyrir að ég hafi ekki verið með á einhverjum fundi sem hv. þingmaður mætti á, fundað sérstaklega með sveitarstjórnarmönnum úr þessum sveitarfélögum. Ég fylgist grannt með þróun mála á þessum stöðum, hef gert þeim grein fyrir því að ég telji það kalla á sértækar aðgerðir ef ekki leysist úr málum. Stjórnmálamenn verða hins vegar að gefa sveitarstjórnarfólki á hverjum stað líka svigrúm til að vinna að lausn mála í stað þess að skipa fólki að leysa þau á tiltekinn hátt.

Ég ætla því að leyfa mér að eiga áfram gott samráð við sveitarstjórnarmenn á þessum stöðum, ræða við þá um hvaða lausnir kunna að vera fyrir hendi en við þingmenn munum ekki taka einhliða ákvörðun um að það eigi að vera tiltekinn atvinnurekstur á tilteknum stað eða að við ætlum að afhenda ákveðnar aðgerðir án samráðs. Við verðum að eiga samráð til að þær aðgerðir sem kann að verða ráðist í skili sem mestum árangri.