143. löggjafarþing — 101. fundur,  30. apr. 2014.

þrotabú gömlu bankanna og skuldaleiðrétting.

[15:27]
Horfa

forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegur forseti. Ég heyri ekki betur en að hv. þingmaður sé nú farinn að tala um einhverja aðra 300 milljarða en þá 300 milljarða sem hann og nokkrir samflokksmenn hans reyndu að stimpla inn að framsóknarmenn hefðu talað um að þyrfti í skuldaleiðréttingu. Við ítrekuðum einmitt í ein fjögur ár að skuldaleiðrétting mundi ekki kosta það mikið þó að nokkrir af þingmönnum Samfylkingarinnar hafi hugsanlega haldið því fram. Nú er talað um 300 milljarða svigrúm við uppgjör slitabúa föllnu bankanna og afléttingu hafta. Ég hef aldrei sagt að það yrðu endilega 300 milljarðar í því svigrúmi, ég hef hins vegar svarað því til þegar ég hef verið spurður að ég teldi að 300 milljarðar væru ekkert sérstaklega hátt mat hvað varðaði hugsanlegt svigrúm. Það veltur að sjálfsögðu á því hvernig greiðslujöfnuður landsins þróast.

Eins og staðan er nú get ég alveg tekið undir mat hv. þingmanns ef það var rétt skilið að hv. þingmaður teldi æskilegt að það næðist meira svigrúm en 300 milljarðar. Það er hins vegar ekki gefið að sú verði niðurstaðan. Aðalatriðið er að svigrúmið sé það mikið að það leyfi afléttingu hafta. Með öðrum orðum er svigrúmið sem slíkt, sú tala, ekki endanlegt markmið. Endanlegt markmið er að hér náist niðurstaða sem leyfir afléttingu hafta, svigrúmið verði það mikið að hægt verði að aflétta höftum. Þá er spurningin: Hvað þarf til þess? Jú, það sem þarf til þess umfram annað er að menn nái ásættanlegum nauðasamningum. Á síðasta kjörtímabili var ekki mikill hvati til þess. Slitabúin voru meira að segja skattfrjáls, sluppu við að greiða skatt sem nú nemur um 30 milljörðum kr. á ári, svoleiðis að nú eru að minnsta kosti (Forseti hringir.) þessir aðilar farnir að leggja sitt til samfélagsins. Það breytir þó ekki því að (Forseti hringir.) fimm ár eru allt of langur tími fyrir fyrirtæki að vera í slitameðferð.