143. löggjafarþing — 101. fundur,  30. apr. 2014.

veiðigjöld.

568. mál
[16:02]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (andsvar):

Herra forseti. Ég er mjög hrifinn af þessari hugmynd um að allir landsmenn fái sinn hlut af kvótanum. Það yrði þá gert út frá sanngirnissjónarmiðum gagnvart þeim sem hafa kvótann í dag, hann yrði færður til landsmanna á einhverju tímabili, hvort sem það eru 10, 20, 40 ár. Það er eitthvað sem mundi þurfa að ræða út frá sanngirnissjónarmiðum.

Mig langar að spyrja þingmanninn út frá þeirri grunnforsendu sem eignarrétturinn grundvallaðist á upprunalega og byggist m.a. á hugmyndum Johns Lockes. Það er einungis hægt að fá eignarrétt á sjálfsprottnum auðlindum, auðlindum sem koma frá náttúrunni, með því að erfiði komi þar við sögu og að uppfylltum tveim frumskilyrðum. Annað skilyrðið er að nægilega mikið sé eftir af gæðum fyrir aðra þannig að jafnræðisreglan sé uppfyllt og hitt skilyrðið er að ekki má eyða þessum gæðum, það má ekki fara svo illa með þau að þau skemmist. Þannig verður að hafa sjálfbærniregluna líka að leiðarljósi.

Það verður síðan að taka tillit til komandi kynslóða og barna o.s.frv. Þetta eru ekki eignarréttindi sem er úthlutað til fólks sem það getur síðan framselt, heldur er þetta nýtingarréttur. Maður hefur þá einn hluta af 320 þúsund í nýtingarrétt og getur leigt hann út en getur ekki framselt hann að eilífu, hann verður ekki eignarréttur. Síðan þegar maður deyr taka komandi kynslóðir við nýtingarréttinum. Þetta verður áfram sjálfsprottin auðlind sem allir hafa jafnan rétt til þess að ganga í og nýta. Ef þeir kjósa að gera það ekki sjálfir skuli þeir leigja hann til einhvers annars, þannig að hann ónýtist ekki. Þá mundi skapast markaður um réttinn. Þeir sem væru í bestri stöðu til að bjóða í kvótann, eins og hv. þingmaður segir, væru þeir sem gætu boðið hæst verð fyrir hann og gætu haft veiðarnar sem ódýrastar, byðu upp á skilvirkni.