143. löggjafarþing — 101. fundur,  30. apr. 2014.

veiðigjöld.

568. mál
[16:06]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (andsvar):

Herra forseti. Ég er sammála hv. þingmanni í megindráttum að þetta er sameiginleg auðlind. Auðlind er kannski nýtt hugtak þegar verið er að tala um þetta eða ekki, fallvötnin voru ekki auðlind í það minnsta en fiskurinn hefur alltaf verið auðlind. Jarðir sem lágu annaðhvort að sjó eða við á þar sem hægt var að veiða fisk voru alltaf verðmætari en aðrar.

Grunnhugmyndin er að sjálfsprottin gæði sem koma frá náttúrunni sjálfri eru sameiginleg eign. Þetta er grunnforsendan sem kemur fram þegar menn skilgreina eignarréttinn fyrir nokkrum öldum síðan. Auðlindin er sameiginleg og hugmyndin er að hún eigi að vera sameiginleg meðal Íslendinga. Það kemur fram í 1. gr. laga um stjórn fiskveiða eins og þau eru. Þetta er sameiginleg eign þjóðarinnar, sama hvað menn vilja segja um það þá stendur það nú samt í lagatextanum.

Ef auðlindin er sameiginleg eign og ekki á að fara þá leið að við höfum öll jafnan rétt til að ganga í hana, þó að sett væri þak á það hvað við mættum veiða mikið til þess að tryggja sjálfbærni hennar eins og þarf að gera, eitthvert kvótaþak, eða takmarka aðgang með veiðidögum, sama hvernig aðgangur er takmarkaður til að tryggja sjálfbærni þá förum við þessi leið. Fyrst við megum ekki öll ganga jafn mikið í þessa auðlind og ákveðnir aðilar hafa fengið rétt til að ganga í hana og útiloka aðra erum við með núgildandi fyrirkomulag. Þótt við séum skotnir í hinu fyrirkomulaginu er það ekki að fara að gerast. Það sem hefur gerst og mun áfram gerast er að ákveðnir aðilar fá rétt til að sækja í auðlindina og aðrir ekki. Þetta eru sjálfsprottin náttúruleg verðmæti og grundvöllurinn að eignarrétti og nýtingu þeirra er sá að auðlindin er sameign. Þegar menn fá þau hlunnindi að sækja í auðlindina verður að sjálfsögðu að tryggja að réttlát renta (Forseti hringir.) renni til þeirra sem eiga þessa sameign.