143. löggjafarþing — 101. fundur,  30. apr. 2014.

veiðigjöld.

568. mál
[16:08]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Ég tel reyndar, herra forseti, að takmörkunin hafi í fyrsta lagi bjargað þessari auðlind. Ef aðgangur hefði ekki verið takmarkaður, ef löggjafinn hefði ekki komið til, ríkisvaldið, væri búið að veiða síðasta þorskinn, (Gripið fram í.) það er mín trú, og allir væru jafnfátækir, líka útgerðarmennirnir sem gerðu út á þeim tíma. Þeir hefðu neyðst til að snúa sér að einhverju öðru og þjóðin sjálf hefði aflað sér lífsviðurværis á annan hátt. Þannig að takmörkunin bjó til auðlindina, bjó til verðmætin.

Við ræðum hér frumvarp um það hvernig eigi að láta þá sem njóta aðgangs í dag borga fyrir aðgang að auðlindinni, að þessari takmörkuðu auðlind. Það er gert að mínu mati með mjög fátæklegum hætti vegna þess að það liggur ekki einu sinni fyrir hvað sanngjarnt og hæfilegt gjald fyrir aðgang að auðlindinni þýðir. Það liggur ekki fyrir. Menn eru ekki einu sinni sammála um það. Sumir segja að það eigi að vera 25%, aðrir segja að það sé 50% af umframrentu, sem er eitthvert hugtak sem menn hafa líka búið til. Menn þurfa því í raun að búa til líkan, ríkismódel, og þurfa að hafa upplýsingar aftur í tímann og þeir standa alltaf frammi fyrir þessu vandamáli.

Hins vegar ef Jón og Gunna fengju þetta til sín og reyndu að selja sinn kvóta mundi myndast verð á aflaheimildum, veiðiheimildum. Fyrst myndast verð á því hvað það kostar mikið að veiða t.d. 1% af afla við Ísland. Þegar búið væri að breyta því yfir í fisktegundir kæmist líka á markaður með veiðar í einstökum fisktegundum, löngu, þorski o.s.frv. Svoleiðis kerfi mundi búa til markað sem mundi leysa það vandamál sem við reynum að leysa í þessu frumvarpi og munum þurfa að leysa á hverju einasta ári.