143. löggjafarþing — 101. fundur,  30. apr. 2014.

veiðigjöld.

568. mál
[16:26]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Fyrr á tíð, fyrir ekki svo ýkja mörgum áratugum, var bæjarútgerð eða Bogesen í hverju plássi, hverjum byggðakjarna, við sjávarsíðuna, eða blanda af þessu tvennu, bæjarútgerðinni og einkaframtakinu, sem áttu það sammerkt að eiga tengingu inn í samfélagið, voru tengd inn í það samfélag sem þessir aðilar voru sprottnir upp úr, hvort sem það var bæjarútgerðin eða útgerðarfyrirtækið á staðnum. Við innleiðingu kvótakerfisins er hoggið á þessi tengsl, þessi samfélagslegu tengsl, og við þekkjum öll úr síðari tíma sögu illar afleiðingar kvótakerfisins.

Hv. þm. Pétur H. Blöndal sagði að það hefði gerst í seinni tíð að menn hefðu uppgötvað gildi markaðarins á þessu sviði sem öðrum og rakti ýmis dæmi þessa um miðstýringu í austurvegi og ágæti markaðsbúskapar á Vesturlöndum. Vandinn er sá að hagsmunir fyrirtækis og eigenda atvinnutækja þurfa ekki að fara saman við samfélagslega hagsmuni. Þessir hagsmunir eru ekki endilega hinir sömu.

Þegar fiskvinnslufyrirtækið Vísir skoðar bókhald sitt kemst það að raun um að með því að loka tveimur vinnslustöðvum og færa áherslurnar á hina þriðju, sem er í eign fyrirtækisins, muni að öllum líkindum takast að spara í bókhaldinu, þá eru ótaldir hinir samfélagslegu ókostir sem fylgja því að tugir manna, í sjávarbyggðunum sem lokað er í, missa sína vinnu. Nú eru menn að horfa upp á það að fyrirtækið er að bjóða starfsfólkinu í öðrum landshlutum vinnu á þeim stað sem starfsemin verður flutt til, í Grindavík; en eins og við þekkjum af fréttum lokar Vísir á Húsavík og Djúpavogi.

Þarna hefur það því gerst að Bogesen, sem áður var á sínum stað í sinni byggð, hann er farinn að dírigera fólki í öðrum hornum landsins. Þetta er það sem hv. þm. Pétur H. Blöndal kallar gildi markaðarins. Þá spyr ég um gildi samfélagsins og hvers það er megnugt til að koma til móts við fólk sem er að glata vinnunni vegna aðgerða af þessu tagi. Ég tek undir með þeim sem hafa vakið máls á því hér í þingsal að ríkisvaldið verður á einhvern hátt að grípa í taumana með einhverjum ívilnandi aðgerðum, einhverjum aðgerðum til að forða fólki á þessum stöðum frá atvinnumissi. Við erum búin að sjá mörg dæmi þessa á undanförnum árum, en þetta er með verri dæmum alla vega úr seinni tíð. Þarna þarf eitthvað að gerast. Ég vil taka undir með þeim sem hafa hvatt til þess.

Hvernig á að afla samfélaginu tekna af sjávarauðlindinni? Við erum búin að ræða það í þessum sal, sennilega meira en flest önnur mál, og hafa skoðanir verið mjög skiptar. Ég var löngum á því máli að við ættum fyrst og fremst að gera þetta í gegnum tekjuskatta, skatta á arð og skatta á tekjur, tekjur fyrirtækjanna, þess starfsfólks sem vinnur hjá fyrirtækjunum, arðinum sem fyrirtækin skapa og þar fram eftir götunum. Það sem ég sá ámælisvert við kvótakerfið var fyrst og fremst sú eignamyndun sem þar var að eiga sér stað og framsalið, þar sem handhafar kvótans fóru að leigja hann öðrum útgerðarmönnum sem ekki höfðu kvóta á hendi. Þetta voru þeir annmarkar sem ég sá fyrst og fremst á kvótakerfinu, ekki tekjuhliðin. Síðan tóku viðhorf mín að breytast. Endahnúturinn á þá þroskasögu mína var rekinn í mótmælunum sem fram fóru hér fyrir utan alþingishúsið árið 2012 þegar við ræddum um auðlindagjald á sjávarútveginn. Reyndar kom hið endanlega sjokk ekki fyrr en nokkru síðar og mun ég víkja að því hvað það var sem breytti afstöðu minni.

Það var eftir sumarþingið fyrir tæpu ári. Þá fór fram hér í þingsal mikil umræða um lækkun gjaldanna á útgerðina og við í stjórnarandstöðunni andæfðum því mjög ákveðið. En úti fyrir þinghúsinu var grátið. Stærstu útgerðarfélögin stefndu öllum sínum flota hér í Reykjavíkurhöfn og síðan kom mannskapurinn hingað upp á torfuna hér fyrir fram og mótmælti meintum misráðnum ráðagjörðum þáverandi stjórnar, höfðu gert það, en núna var ekkert um mótmæli vegna þess að stjórnin var að verða við óskum þeirra í reynd.

Líður nú og bíður, en ekki lengi. Skömmu eftir að þingið fer heim er farið að boða til aðalfunda í útgerðarfyrirtækjunum. Og viti menn, þeir sem höfðu grátið hæst og mest og haft sig mest í frammi, bæði hér fyrir utan og í fjölmiðlum, sýndu fram á bærilegan hag. Vinnslustöðin í Vestmannaeyjum greiddi í arð fyrir tæpu ári ef ég man rétt yfir eitt þúsund milljónir króna — yfir eitt þúsund milljónir króna í arð — þeir sem höfðu borið sig svona illa. Samherji sýndi fram á meiri gróða en nokkru sinni í sinni sögu. Þegar þetta bætist ofan á hitt, að við höfum orðið vitni að því að leiguliðar sumra þessara aðila — sumra, segi ég, vegna þess að ekki hafa öll útgerðarfélög tíðkað framleigu á kvóta — en sum þessara félaga höfðu látið leiguliða sína greiða sér ofan í sína vasa miklu hærri upphæðir en óskað var eftir að nú yrðu látnar renna í ríkissjóðinn.

Þá segi ég: Eftir þetta var trúverðugleiki þessara aðila farinn í mínum huga, hann var farinn. Þá segi ég, vegna þess að við þurfum alltaf að laga okkur að aðstæðum: Við verðum að hugsa aðrar og nýrri leiðir. Ég gerði það í mínum huga. Þar með var ég kominn á sveif með gjaldinu fyrir aðgangi að sjávarauðlindinni. Þar með höfðu sjónarmið mín hvað þetta snertir breyst.

Annað er það sem ég hef jafnan viljað leggja áherslu á, það er að með þeim lögum sem við setjum og þeim ramma sem við ákveðum verði tryggður ákveðinn fjölbreytileiki í útgerðinni og að við setjum ekki litlu fyrirtækjunum um of stólinn fyrir dyrnar. Ég hef sannast sagna áhyggjur af því sem er að berast frá smábátasjómönnum sem telja að þær breytingar sem hér er verið að gera komi ekki nægilega til móts við minnstu útgerðirnar. Landssamband smábátaeigenda óttast að verði frumvarpið óbreytt að lögum muni það hafa í för með sér fækkun smærri fyrirtækja — á þessa leið segir í fréttatilkynningu frá þessum aðilum. Ég er ekki að fara hér í ræðu minni inn í einstaka þætti þessa frumvarps, til þess hefði ég þurft að sitja vel og lengi í þeim nefndum sem eru að fjalla um frumvarpið, en ég er að tala hér um hin almennu prinsipp, hin almennu grundvallarsjónarmið.

Ég horfi líka á það sem segir í greinargerð með frumvarpinu, þá ekki síst það sem kemur frá fjármálaráðuneytinu um áhrifin á tekjur ríkissjóðs. Hér segir, með leyfi forseta:

„Verði frumvarpið óbreytt að lögum er gert ráð fyrir að tekjur ríkissjóðs af veiðigjöldum fyrir aflaheimildir verði 1 milljarði kr. minni á árinu 2014 en áætlað er í gildandi fjárlögum og 1,8 milljörðum kr. minni á árinu 2015 en áður var áætlað, eða samtals 2,8 milljarðar kr. á þessum tveimur árum.“

Síðar segir, með leyfi forseta:

„Á þessu stigi liggja ekki fyrir aðrar ráðstafanir til að vega upp á móti þessari lækkun á áformaðri tekjuöflun ríkissjóðs. Að óbreyttu má því gera ráð fyrir að staða ríkissjóðs muni versna á árunum 2014 og 2015 frá því sem áður var áætlað.“

Já, segir þá fjármálaráðherrann. Ætla menn alveg óháð stöðunni í atvinnugreininni að skattleggja hana, óháð því hvernig henni vegnar? Nei, við erum að reyna að búa til kerfi sem er raunsætt að þessu leyti, en þarna er verið, og það var hugsun okkar í fyrri ríkisstjórn, að búa til ákveðna fasta stærð, að aðgangurinn að sjávarauðlindinni kostaði tiltekna peninga á sama hátt og það kostaði tiltekna peninga að leigja kvóta fyrir þá sem ekki höfðu hann á hendi, og var sóttur í hendur útgerðarfyrirtækja sem bjuggu yfir kvótanum.

Við skulum hafa það í huga að við erum væntanlega öll sammála um að við þurfum að reka heilbrigðiskerfi, skólakerfi, við þurfum að hafa vita til að lýsa skipunum, við þurfum að hafa veðurþjónustu, við þurfum að hafa innra stoðkerfi í samfélaginu, samgöngur til að flytja fiskinn og aðrar vörur og fólk á milli staða og við þurfum að fá peninga til að fjármagna þetta. Við stöndum frammi fyrir því að spyrja: Hverjir eiga að greiða? Eru það ekki þeir sem eru aflögufærir? Eru það ekki þeir sem geta borgað eigendum sínum 1.100 milljónir í arð á einu ári? Eru það ekki þeir sem eiga að láta eitthvað af hendi rakna en ekki hinir sem hafa búið við óbreyttan lágan kaupmátt í langan tíma, eða jafnvel kaupmáttarskerðingu, eða þeir sem hafa ekki vinnu, búa við orkumissi? Er þetta ekki fólkið sem við eigum að láta peninga renna til en ekki taka frá? Ég hefði haldið það.

Ég hefði haldið að útgerðin væri aðeins stærri í andanum en raun ber vitni. Og ég hefði haldið að stjórnarmeirihluti sem vildi vera sanngjarn, ekki bara í orðum heldur í verkum, tæki öðruvísi á þessum skattamálum en gert er með þessu frumvarpi.