143. löggjafarþing — 101. fundur,  30. apr. 2014.

opinber fjármál.

508. mál
[17:25]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Reglan um að í fjármálaráðuneytinu séu vistaðar helstu eignir ríkisins og því ráðuneyti falin umsjá þeirra og varðveisla er meginreglan samkvæmt frumvarpinu. Eins og segir í frumvarpinu þurfa sérlög eða stjórnvaldsfyrirmæli að kveða á um annað. Ég vil bara segja að þetta er yfirgnæfandi meginregla samkvæmt frumvarpinu og í sjálfu sér ekki ætlunin að gera neinar breytingar frá gildandi réttarástandi um þetta, þar með talið um þjóðlendurnar.

Ef ég skildi fyrirspurnina rétt laut hún að því hvernig meðferð á slíkum eignum yrði samkvæmt ríkisreikningi eða uppgjöri ríkisins. Það er eitt af álitamálunum hvernig framsetningin á að vera samkvæmt alþjóðlegum reikningsskilum og stöðlum á efnahagsreikningi ríkisins. Við sjáum þetta þannig fyrir okkur að allar helstu byggingar t.d. í eigu ríkisins verði færðar á efnahagsreikninginn eigna megin og allar meiri háttar nýframkvæmdir eins og í brúm og meiri háttar vegaframkvæmdum. Það er kannski meira álitamál með það vegakerfi sem að öðru leyti er þegar til staðar. Það verður heilmikið verkefni fyrir Fjársýsluna að koma á fót stofnefnahagsreikningi á grundvelli breyttra reikningsskila, en hún mun m.a. þurfa að fela það í sér að það kemur til afskrifta á eignastofninum og þannig munum við hafa betri yfirsýn yfir það hvort opinber fjárfesting (Forseti hringir.) hverju sinni mæti þeirri afskriftaþörf sem eignastofninn (Forseti hringir.) kallar á (Forseti hringir.) og hvort við viðhöldum eignunum eða ekki.