143. löggjafarþing — 101. fundur,  30. apr. 2014.

opinber fjármál.

508. mál
[17:31]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Virðulegur forseti. Ég vil byrja á því að fagna nú þegar þetta frumvarp er komið fram. Ég held að þar sé mikilvægt plagg á ferðinni og vona að sátt verði að minnsta kosti um meginmarkmið þess. Nefndir þingsins munu fara vandlega yfir það og sjálfsagt gera einhverjar breytingar, en það er mjög mikilvægt að meginstefnan haldi sér. Fjórir fjármálaráðherrar hafa komið að samningu frumvarpsins og úr þremur flokkum, það ætti að auka líkurnar á því að góð sátt náist um málið í þinginu en eins og margoft hefur komið fram er nauðsynlegt að við aukum aga í ríkisfjármálunum. Við höfum verið sökuð um að slugs hafi verið á hlutunum og lausatök. Þó að að einhverju leyti hafi tekist að auka agann eftir hrun höfum við ekki náð þeim stað sem löndin í kringum okkur, sem við viljum helst bera okkur saman við, hafa náð í þessum efnum.

Þetta frumvarp ber með sér stefnumörkun í opinberum fjármálum eins og hæstv. fjármálaráðherra hefur farið mjög vel yfir og ég ætla ekki að fara að endurtaka það allt saman. Mig langar þó til að skerpa á nokkrum atriðum sem mér finnst skipta mestu máli hvað varðar frumvarpið. Stefnumörkunin er til lengri tíma. Gert er ráð fyrir að hún sé vandaðri og formfastari en tíðkast hefur. Það er það sem við höfum þurft á að halda, að ákveðnir ferlar séu settir niður og formfesta sé í ferlinu.

Grunngildin sem frumvarpið byggir á eru afar mikilvæg; það er sjálfbærni, varfærni, stöðugleiki, festa og gagnsæi. Það sem hv. fjárlaganefnd mun gera, hvort sem það verður fjárlaganefnd eða önnur sérnefnd, er að fara ítarlega yfir hverja einustu grein og máta hana við þessi grunngildi. Þetta eru þær stoðir sem frumvarpið stendur á og skipta mjög miklu máli. Það er augljóst að það er eftirsóknarvert að ríkisfjármálin séu sjálfbær, að við náum skuldunum niður á það stig að svo verði. Með varfærninni skiptir máli að við leggjum raunsætt mat á breytingar og tökum okkur tíma til að vega og meta og setjum upp skilvirkt eftirlit. Þessi grunngildi eru afar mikilvæg og þurfa að vera sýnileg sem rauður þráður í gegnum frumvarpið.

Það er líka mjög mikilvægt fyrir okkur hér í þinginu að fá til umræðu fjármálastefnu nýrrar ríkisstjórnar til fimm ára. Það skiptir mjög miklu máli að hægt sé að skerpa línurnar, að það komi strax fram í upphafi kjörtímabils og í störfum nýrrar ríkisstjórnar hvernig áætlunin á að líta út til næstu fimm ára og hún sé tekin fyrir í þingi og ekki síður að fjármálaáætlunin, sem er byggð á þessari stefnu, sé tekin fyrir og um hana sé rætt eins og þingsályktunartillögu í þinginu; að það sé gert snemma á árinu mun auðvelda stjórnsýsluna heilmikið. Það er til hagsbóta fyrir bæði stofnanir og ráðuneyti að fá þetta upp á borðið snemma á árinu og vinna síðan fjárlagafrumvarpið eftir þeim meginlínum sem þar koma fram. Það eykur líkur á að hægt sé að sætta sjónarmið.

Við höfum verið að glíma við það hér að heilmikil leynd hvílir yfir fjárlagafrumvarpi þar til það kemur fram að hausti, þá fyrst koma upp ágreiningsefni og lítill tími til að útkljá málin. En með þeirri nýbreytni sem boðuð er í frumvarpinu held ég að líkur aukist á að vinnubrögðin verði vandaðri og að sátt náist. Eins og hæstv. fjármálaráðherra kom inn á hér áðan er líka búið að blanda þinginu í málið á fyrri stigum og þannig erum við orðin samábyrg svo að mér líst afar vel á þessa breytingu. Það er ekki nóg að hæstv. fjármálaráðherra sé tilbúinn til að fylgja lögunum eftir verði frumvarp þetta að lögum, heldur þurfum við öll að gera það, ekki bara ráðuneytin heldur líka við alþingismenn, við þurfum öll að vera tilbúin til að gangast undir þann aga sem frumvarpið boðar. Það er það sem verið er að kalla eftir.

Þar eru til dæmis mjög strangar reglur, en mikilvægar og nauðsynlegar að mínu mati, skilyrði fjármálastefnunnar og fjármálaáætlunarinnar sem hæstv. ráðherra taldi hér upp áðan, en mig langar að endurtaka það. Skilyrðin eru að heildarafkoma yfir fimm ára tímabil skuli ávallt vera jákvæð og árlegur halli ávallt undir 2,5% af landsframleiðslu. Miðað við núverandi landsframleiðslu eru það 45 milljarðar kr. Það má fara niður að þessu marki, en til fimm ára þarf staðan að vera jákvæð og heildarskuldir að frátöldum lífeyrisskuldbindingum og viðskiptaskuldum og að viðbættum sjóðum og bankainnstæðum að vera lægri en sem nemur 45% af vergri landsframleiðslu. Ef skuldahlutfallið er hærra, eins og það er nú, þarf að lækka skuldir á hverju þriggja ára tímabili um að minnsta kosti 5% á hverju ári. Þetta eru 17 milljarðar miðað við stöðuna eins og hún er núna. Það þarf auðvitað að máta þessi skilyrði við skuldastöðuna eins og hún er núna eins og fram kom í andsvörum hér áðan.

Við þurfum líka að máta þetta við aðrar áskoranir eins og til dæmis lífeyrisskuldbindingarnar. Hvernig ætlum við að vinna á þeim? Hvernig ætlum við að taka á aldurssamsetningu þjóðarinnar sem er að breytast? Það felur líka í sér áskoranir. Þetta þarf allt saman að mátast saman. Eins og staðan er í ríkisfjármálunum er alveg augljóst að þetta gerir miklar kröfur til breytinga. Verklag er samt skýrara og því fagna ég. Við þurfum á skilyrðunum að halda. Mér líst ekki illa á þessi skilyrði, en það er nauðsynlegt að máta þau við stöðuna eins og hún er og hvernig við sjáum hlutina þróast. Síðan er til dæmis hægt að takast á um fjármálaráðið. Einhverjir gætu haft þá skoðun að ekki væri nauðsynlegt að hafa svona hlutlægt fjármálaráð, en það er starfrækt í nær öllum nágrannaríkjum Íslands og menn mæla með því og segja að það hafi jákvæð áhrif á aga í ríkisfjármálum.

Eins og hæstv. ráðherra fór hér yfir ber frumvarpið með sér umtalsverða fækkun á fjárlagaliðum. Talað er um málefnasvið og málaflokka, að ráðherrarnir fá aukið vald til að taka stefnuna og heildarupphæðina og brjóta það niður í smærri liði sem síðan verður fjallað um í skýrsluformi á Alþingi.

Ég held að þetta skipti líka mjög miklu máli til að við náum að hífa okkur upp á stefnuplanið, heildarstefnuplanið, og hvernig við viljum sjá skiptinguna milli málaflokka, að það sé meira látið í hönd framkvæmdarvaldsins að skipta því niður á stofnanir. Auðvitað getum við gert ráð fyrir því að ráðherrar fari ekki algjörlega í andstöðu við þingið í þeim efnum, enda þurfa þeir að standa skil á þeirri skiptingu frammi fyrir Alþingi, en ég held að þetta sé samt sem áður til bóta og hjálpi okkur til að fara upp á svalirnar og líta yfir sviðið. Þannig að ég mæli með þessu.

Eins er með reikningsskilin, að það séu staðlar sem hjálpa okkur hér í þinginu að máta okkur við önnur ríki, draga hlutina skýrt fram. Það hjálpar okkur við að meta hlutina. Þannig þurfum við einmitt að láta þetta liggja.

Virðulegur forseti. Það er önnur nýjung hér sem ég fagna alveg sérstaklega sem er sú að lögfesta kynjaða fjárlagagerð. Ég held að það sé mikið framfaraskref. Kynjuð fjárlagagerð snýst ekki bara um að auka jafnrétti. Konur og karlar eru ekki nefnd í fjárlögunum, en samt snúast þau um og hafa áhrif á líf allra í landinu, mismunandi eftir kynjum. Það er því nauðsynlegt að greina hlutina og gera hlutina þannig að við getum metið, áður en fjárlagafrumvörp eru lögð fram til samþykktar, hvaða áhrif ákvarðanirnar hafa á kynin. Þetta getur verið mikilvægt, ekki bara út frá jafnréttissjónarmiði heldur líka út frá byggðasjónarmiði. Við getum verið að taka ákvarðanir hér á Alþingi sem hafa áhrif á byggðirnar, sem hafa áhrif á það hvar konur vilja til dæmis búa; og sú byggð er í vanda þaðan sem ungu konurnar flytja af því að þær vilja búa annars staðar. Þetta er því ekki eingöngu eitthvert kvennajafnréttismál, heldur líka byggðamál. Einnig er kynjaðri hagstjórn og fjárlagagerð ætlað, verklag allt í kringum það, að bæta hagstjórn og fjárlagagerð þannig að við förum betur með opinbert fé. Ég er afar stolt af því að við skulum setja það verklag í lög og ánægð með að því skuli vera fylgt eftir. Við höfum frá árinu 2009 unnið með kynjaða hagstjórn og fjárlagagerð í ráðuneytunum og í mörgum sveitarfélögum og menn vilja halda því áfram.

Auðvitað erum við núna í lærdómsferli. Við þurfum að láta tæknina vinna með okkur af því að nú erum við meira að greina gögnin eftir á. Við erum kannski núna að taka fjárlög og spyrja okkur eftir á: Hvernig var þetta nú, hvaða áhrif höfðu þau? Við þurfum að komast í það að geta sagt fyrir fram til um það hvaða áhrif fjárlögin muni hafa á kynin.

Virðulegur forseti. Þetta frumvarp, verði það að lögum, mun hafa margþætt áhrif á stjórnsýsluna. Auðvitað þurfum við að hafa aðdraganda að því hvernig við innleiðum málið, en það skiptir mjög miklu að við náum um það góðri sátt, vegna þess að það að breyta hegðun okkar til betri vegar mun taka á. Það mun taka á okkur öll. Við þurfum stanslaust að vera með gildin góðu sem eru undirstaða fyrir þetta frumvarp til að minna okkur á hvert við viljum stefna í þessum efnum.

En enn og aftur, virðulegur forseti: Ég fagna því að þetta frumvarp sé komið fram og ég hlakka til að vinna með það.