143. löggjafarþing — 101. fundur,  30. apr. 2014.

opinber fjármál.

508. mál
[17:48]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni spurninguna. Þetta er einmitt það sem ég var að reyna að ýja að hér áðan í ræðu minni, að við þurfum að taka það svolítið í okkur sjálf ef við ætlum að láta þetta allt ganga upp. Ég held reyndar að þingmenn muni aldrei hætta að slást fyrir sín kjördæmi eða fyrir sinn málaflokk, en ég held að sú barátta verði tekin á öðrum stað. Við byrjum á að tala um það þegar fjármálaáætlunin er lögð fram og þá getum við farið í það hvernig skiptingin á að vera á milli málasviða og málaflokka. Þar verður heilmikil pólitík og það er spurning hvað verður þar ofan á.

En það sem verður að breytast og fylgir þessu frumvarpi — ég veit ekki hvað ég á að kalla það en það er þegar menn fara að slást fyrir sína stofnun, ég vil fá milljón kr. meira þangað og 2 milljónir eiga að fara í hitt verkefnið o.s.frv. Það er þetta sem verður frá okkur tekið. Ef við ætlum að fara inn í þetta ferli allt saman og þessar breytingar verðum við að vera tilbúin að leggja þetta frá okkur. Við verðum áfram með pólitíkina og stefnuna og kjördæmin undir, en við horfum meira yfir sviðið hvað það varðar en látum hitt öðrum eftir.