143. löggjafarþing — 101. fundur,  30. apr. 2014.

opinber fjármál.

508. mál
[18:04]
Horfa

Haraldur Benediktsson (S):

Frú forseti. Við ræðum frumvarp til laga um opinber fjármál. Eins og fram hefur komið í þessari umræðu hefur frumvarpið verið alllengi í smíðum og að því máli hafa komið fleiri en einn og fleiri en tveir ráðherrar og flestallir núverandi þingflokkar á Alþingi á fyrra kjörtímabili og svo þessu. Það sýnir kannski stærð málsins betur en nokkuð annað að undirbúningstíminn er búinn að vera langur og ítarlegur.

Ég ætla í framhaldi af fínum umræðum hv. þingmanna sem hafa talað á undan mér um þetta frumvarp að leyfa mér að prjóna nokkur atriði þar við. Ég get í öllum aðalatriðum lýst ánægju minni með þær ræður sem hafa verið fluttar og er sammála efni þeirra. Ég held að mikilvægt sé að við ræðum í framhaldinu að þetta frumvarp mun breyta heilmiklu fyrir okkur sem störfum í stjórnmálum og breyta mögulega ásýnd stjórnmálanna líka. Ég held að það geti verið kostur, til viðbótar því að ná betri stjórn á fjármálum ríkisins og þeim góðu og göfugu markmiðum og gildum sem hafa verið gerð hér að umtalsefni.

Það að ný ríkisstjórn skuli koma til síns fyrsta þings með útfærða fjármálastefnu hlýtur að breyta nokkuð ásýnd kosningabaráttunnar, í aðdragandanum að ný ríkisstjórn verður mynduð. Þetta mun væntanlega knýja stjórnmálaflokkana til þess að tala skýrar um stefnumál sín í ríkisfjármálum til lengri tíma og meiri tími mun þurfa að fara í þann málaflokk í stjórnarmyndunarviðræðum til að berja saman slíka stefnu sem verður kannski til þess að til leiks komi ný ríkisstjórn og nýir þingmenn í upphafi hvers kjörtímabils með nokkuð skarpa sýn á stefnu í ríkisfjármálum til kjörtímabilsins, sem er vel. Þetta tel ég sé að eitt af þeim atriðum sem geta leyst úr læðingi jákvæða krafta og mjög mikilvægt fyrir kjósendur að átta sig á því svo að þeir geti staðsett sig betur gagnvart framboðum á hverjum tíma.

Annað sem ég vildi fjalla um út frá því sem ég nefndi um kjósendur og lýðræðið bætir kannski nokkru við það sem hv. þm. Bjarkey Gunnarsdóttir ræddi hér áðan. Það snýst um framsetningu á fjárlögum. Hér er talað um málefnasvið og málefnaflokka. Síðan gerði ráðherra að umtalsefni fylgiskjal með fjárlagafrumvarpi hvers árs þar sem fjárveitingar til málefnasviða verða brotnar niður á einstaka málaflokka og stofnanir og verkefni. Ég ætla að leyfa mér að bæta svolitlu við það og lýsa því yfir að ég deili áhyggjum hv. þingmanns sem talaði á undan. Mér sýnist að með ákveðnum rökum sé verið að færa verkefnið svolítið til andlitslausra embættismanna. Kjósendur hafa kannski minni tök á að kreista frambjóðendur á hverjum tíma til þess að tala skýrt um ákveðna málaflokka. Það verður þá lögð meiri áhersla á að tala um málefnasviðin og áherslurnar í framboðunum, en ég held að við þurfum að ræða það mjög ítarlega í umfjöllun um þetta frumvarp hvernig við ætlum að komast hjá því að færa í meira mæli uppskiptingu þessara fjármuna til þeirra sem ég vil kalla andlitslausa embættismenn, með fullri virðingu fyrir öllum embættismönnum á Íslandi, að sjálfsögðu. Að mörgu leyti mundi þetta létta líf alþingismanna. Ég hef alveg áttað mig á því á stuttri þingsetu að þetta getur orðið til þess. Þess vegna kvikna kannski þær áhyggjur að maður yrði minna í skotlínunni í einstökum málaflokkum.

Ég held að það sem stendur í frumvarpinu um skyldur og ábyrgð ráðherra gagnvart forstöðumönnum stofnana og verkefna sé ákaflega jákvætt, sem sagt að leiðbeiningarskylda ráðherra verði ríkari með þessu nýja fyrirkomulagi en verið hefur. Það hefur einmitt skort á það undanfarin ár að forstöðumenn hafi getað átt samtal við fjármálayfirvöld eða fagráðherrana um það hvernig þeim beri að forgangsraða fjármunum til þess að uppfylla þau lögbundnu verkefni sem stofnanirnar eiga að uppfylla. Við heyrum forstöðumenn segja að stundum hafi vantað skýrari sýn. Ég held að þetta sé mikil framför, en þá veltir maður fyrir sér hvort í frumvarpinu felist nægilega sterk verkfæri til þess að ráðherrarnir geti bæði sinnt leiðbeiningarskyldu sinni og gefið forstöðumönnunum það aðhald í framhaldi sem þeir þyrftu á að halda. Leiðir þetta til þess að við þurfum fleiri embættismenn eða stærri ráðuneyti til þess að fylgjast enn nánar með rekstri fyrirtækja og stofnana? Hvernig getum við annars hugsað okkur að við leysum úr þessu verkefni?

Það kom fram hér í stuttu andsvari hv. þm. Ragnheiðar Ríkharðsdóttur áðan við ræðu hv. þm. Oddnýjar Harðardóttur um freistnivanda þess að standa ekki við fjármálaályktunina sem er samþykkt að vori. Ég held að nákvæmlega einn af meginkostum þessa nýja frumvarps sé að þinginu skuli vera gert skylt að smíða rammann sem fjárlögin verða samin eftir. Þau koma þá kannski ekki jafn mikið á óvart þegar þau birtast loks á haustdögum.

Ég tek alveg undir umræðurnar í andsvörum hér áðan um það hvernig við ætlum síðan að tækla það. Við verðum alltaf að muna að við búum í landi sem hefur sveiflukenndari þjóðarbúskap en mörg önnur. Vonandi erum við að færast frá því að vera svo háð gæftum og fiskverði. Auðvitað hefur efnahagur okkar og þjóð þróast að því leyti að við erum minna háð því, en ég held að umræður um grundvallarstefnu í fjárlagagerðinni að vori geti orðið mikið til bóta.

Þótt ég hafi setið kynningu á þessu frumvarpi og lesið það þokkalega ítarlega vaknaði sú spurning hvort ástæða væri til að virkja fleiri fagþingnefndir í þinginu í aðdraganda að slíkri þingsályktunartillögu og ræða um stefnu í þeim málaflokkum sem heyra undir þær fagnefndir.

Þetta er eilítill prjónaskapur aftan við þær ræður sem hafa verið fluttar hér á undan og voru að mínu viti eðlileg fyrstu viðbrögð. Við höfum spreytt okkur eilítið á ákveðnum köflum eða ákveðnum hluta þessa frumvarps. Við í fjárlaganefndinni höfum á þessum þingvetri rætt um að afnema þá aðferð að merkja tekjur ríkissjóðs. Við höfum ekki alveg sleppt því að spreyta okkur á því að ræða um efnis þessa frumvarps.

Ég tek undir með hæstv. fjármálaráðherra að mikilvægt sé að fagna því að frumvarpið sé komið fram og við fáum kost á því að setja það í almennt umsagnarferli og fá ákveðna mælingu á efnisþáttum þess svo að við séum betur undir það búin að fjalla um það á haustdögum.

Ég mundi bara vilja enda þessa ræðu mína á því að nefna sérstaklega, af því hæstv. fjármálaráðherra gerði það að umfjöllunarefni hér, að mér fyndist fara vel á því að sú fjárlaganefnd sem sendir málið til umsagnar nú á vordögum og tekur væntanlega til við að vinna úr þeim umsögnum geti verið ágætlega undirbúin og tekist á við það að vinna úr frumvarpinu þegar það kemur aftur til þingsins í haust.