143. löggjafarþing — 101. fundur,  30. apr. 2014.

opinber fjármál.

508. mál
[18:19]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Frú forseti. Ég þakka fyrir ágæta umræðu um málið. Komið hafa fram mörg ágæt sjónarmið í umræðunni í dag sem snúa einmitt að grundvallarbreytingum sem frumvarpið mun hafa í för með sér. Ég vil staldra við nokkra þætti.

Í fyrsta lagi vil ég staldra við það sem snýr að framsetningu fjárlagafrumvarpsins og því að í meginatriðum verður framsetningin ekki lengur byggð á flokkun milli ráðuneyta heldur á framsetningu sem horfir til málefnasviða og síðan hinu að fjárveitingarnar séu ákveðnar í sérstöku fylgiriti. Í umræðunni var vakin athygli á því að það þrengdi möguleika þingsins til að taka endanlegar ákvarðanir um fjárveitingar til einstakra ríkisaðila. Það er út af fyrir sig rétt svo langt sem það nær vegna þess að ef meiri hluti er fyrir því í fjárlaganefndinni að gera breytingar á fjárheimildum til einstakra málaflokka með sérstakri skýringu um að framlög þyki vanta til tiltekinna stofnana, er augljóst að slíkt mundi í framhaldinu hafa í för með sér uppfærslu á fylgiritinu og í öllum tilfellum er gert ráð fyrir því að fylgiritið verði hvort eð er uppfært til samræmis við þær breytingar sem þingið kann að gera á frumvarpinu í þinglegri meðferð.

Því er hins vegar ekki að leyna að það er meðal markmiða frumvarpsins að beina sjónum meira að langtímaþróun og þá ekki síst þróun á einstökum málefnasviðum. Það birtist með margvíslegum hætti. Það birtist í fyrsta lagi í þessari framsetningu, en þar horfum við til málefnasviðanna á komandi fjárlagaári en líka fram í tímann. Það birtist einnig í kröfunni sem lögð er á einstök ráðuneyti um að skila áætlun um þróun málefnasviðanna hvað varðar gæði og þjónustustig á viðkomandi málefnasviðum og hvernig stofnanaumgjörðin á að standa undir þeim kröfum, annars vegar með þeim faglegu áherslum sem ráðuneytið leggur til grundvallar, og hins vegar hvernig fjárlagafrumvarpið og fjármálaáætlunin styður við þær áherslur. Það er því alveg skýrt markmið með frumvarpinu að beina sjónum meira að heildarmyndinni. Með því er á engan hátt vegið að möguleikum þingsins til þess að taka til umræðu fjárheimildir einstakra stofnana. Ég sé það gerast þannig hér í þinglegri umræðu að viðkomandi fagráðherrar verði beðnir um að gera grein fyrir því hvernig skiptingin er í fylgiritinu og færa fram rök eða skýringar á því hvernig hún skiptist t.d. í menntamálum milli þeirra stofnana sem heyra undir menntamálaráðherra eða í heilbrigðismálum milli þeirra stofnana sem heyra undir heilbrigðisráðherra. Hér í þinginu getur farið fram mjög málefnaleg umræða um að frekari framlög kunni að skorta til einstakra slíkra stofnana. Það verður þá á faglegum forsendum og viðkomandi fagráðherra fær tækifæri til þess að bregðast við þeim athugasemdum.

Eins og áður segir getur þingið síðan gert breytingar á heildarframlögunum til málaflokkanna og haft þessar skýringar. En ég ætla ekki að draga fjöður yfir það að því markmiði væri hins vegar fórnað að taka umræðu í þinginu um breiðu línurnar, um heildaráhrif frumvarpsins, um þróunina í ríkisfjármálum fram í tímann litið ef þingið festist í umræðu um fylgiritið. Ef krafturinn í umræðunni fer í að ræða um skiptingu fjárheimilda þeirra fjárveitinga sem er að finna í fylgiritinu missir málið marks. Ég vona að það gerist ekki.

Höfum það líka í huga að innan fjárlaga ársins er gert ráð fyrir því að fagráðherrann fái möguleika á því að færa til fjárveitingar milli einstakra stofnana. Svo lengi sem ekki er verið að færa milli rekstrar og stofnkostnaðar eða tilfærslna getur ráðherrann fært rekstrarframlag frá einni stofnun til annarrar. Slíkt gæti verið raunhæft þegar áætlanir um t.d. nemendafjölda í tiltekinn skóla reynast rangar og hafa verið ofáætlaðar á meðan fjárveiting til annars skóla var vanáætluð. Við því getur ráðherrann brugðist innan fjárlagaársins með því að beita sér fyrir uppfærslu á fylgiritinu.

Það þýðir að innan fjárlagaársins getur þingið veitt viðkomandi fagráðherra faglegt aðhald á því sviði sem hann ber ábyrgð á, t.d. í tilvikum eins og því sem ég hef hér rakið, og krafið viðkomandi ráðherra svara um það hvers vegna hann nýti ekki það svigrúm sem honum hefur að lögum verið fært til þess að styðja við viðkomandi stofnun sem hann ber ábyrgð á með breytingum á fjárveitingum. Í því tilviki er hægt að gera slíkar breytingar án þess að atbeina þingsins þurfi til. Það tel ég að muni geta markað talsvert samskipti þingsins við einstaka fagráðherra vegna fjármála þeirra stofnana sem hann ber ábyrgð á í framtíðinni.

Fleira barst í tal í umræðunni. Ég vil aðeins staldra við umræðu um fjármálareglurnar sem mér heyrist að fái hér ágætis hljómgrunn.

Í fyrsta lagi vil ég nefna að ég tel fulla ástæðu fyrir okkur Íslendinga til að setja strangar fjármálareglur. Það tel ég að sé skynsamlegt, ekki síst í ljósi þeirrar nýfengnu reynslu sem við höfum af því hversu miklu það skiptir fyrir ríkið að vera í færum til þess að grípa inn í ef mikill samdráttur verður í efnahagsmálum. Það var einkum sérstaklega sterk staða ríkissjóðs sem gerði okkur kleift að taka lán hér í efnahagsáfallinu sem skall á 2008, sterk staða ríkissjóðs var forsenda bæði fyrir aðgengi að lánsfé og þokkalega bærilegum lánskjörum miðað við aðstæður eins og þær voru á þeim tíma.

Síðast en ekki síst var sterk staða ríkissjóðs yfir höfuð aðalforsenda þess að ríkissjóður þoldi slíka lántöku, að mögulegt var að taka lán upp á 5 milljarða dollara, eins og íslenska ríkið gerði hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og öðrum samstarfsþjóðum, Norðurlöndunum og öðrum þjóðum sem tóku þátt í því prógrammi. Ekki var nóg með að mögulegt var að taka 5 milljarða dollara lán, heldur var hægt að leyfa því að gerast á árunum í kjölfarið að ríkissjóður væri rekinn með nokkur hundruð milljarða halla. Það var hvort tveggja mögulegt án þess að ríkissjóður væri til langframa kominn í öngstræti, það var eingöngu vegna sterkrar stöðu ríkissjóðs í upphafi.

Af þessu má draga þann lærdóm að í framtíðinni getur skipt sköpum að hafa nýtt góðu árin til þess að greiða niður skuldir.

Skuldaviðmiðið sem er að finna í frumvarpinu er nokkru stífara, strangara en ríkin á evrusvæðinu eru almennt með til viðmiðunar. Ég sé fyrir mér að þegar að því kemur í framtíðinni að við höfum dregið úr skuldsetningu vegna gjaldeyrisvaraforðans kunni að vera ástæða til þess að taka skilgreiningu á skuldaviðmiðinu til endurskoðunar og jafnvel hverfa frá því að horfa til skuldsetningar sem innstæður eru á móti, eins og er í raun og veru verið að gera hér, verið er að horfa sérstaklega til þeirra aðstæðna að það sé á vissan hátt óeðlilegt að taka með í brúttóskuldastöðu ríkisins skuldir sem til eru komnar vegna gjaldeyrisvaraforðans, en í framtíðinni er full ástæða til þess að taka það til endurskoðunar. Þá er ég einkum að vísa til þess að við höfum náð að draga úr þessari skuldsetningu, að taka það til endurskoðunar og fella þetta viðmið út án þess að breyta hlutfallinu, þ.e. að miða áfram við 45% en ekki 60% skuldaviðmið, eins og algengt er að aðrir geri.

Það hefur svo sem ekki mikið borist í tal hér í dag, en í frumvarpinu er að finna eins konar ventil fyrir ríkisstjórnina til þess að geta leyft fjárlagahalla við sérstaklega erfiðar aðstæður. Af efnahagskrísunni frá 2008 má draga þann lærdóm að fjármálaregla á borð við þá sem er að finna í frumvarpinu geti við mjög sérstakar aðstæður verið of ströng fyrir ríkið. Þess vegna er að finna í frumvarpinu sérstaka undanþáguheimild til að hverfa frá fjármálareglunni ef efnahagsáföll hafa dunið yfir eða eru yfirvofandi.

Það dugar ekki fyrir ríkisstjórn að lýsa því einfaldlega yfir að nú skuli horfið frá fjármálareglunni, heldur gerir frumvarpið kröfu til þess að ráðherra fjármála komi til þingsins með sérstaka þingsályktunartillögu og leiti samþykkis fyrir því að vikið verði tímabundið, en reglan gerir ráð fyrir því að hægt sé að víkja allt að tvö ár frá fjármálareglunni frá þessum reglum.

Ég tel að þetta sé ekki bara skynsamleg regla í ljósi þess að reynslan sýnir, ekki bara hér á landi heldur líka annars staðar, að það kann að vera ómögulegt annað en að takast á við meiri halla en reglan gerir ráð fyrir til skamms tíma, en sérstaklega tel ég það til þess fallið að auka agavald og eftirfylgni þingsins með fjármálum ríkisins að ráðherrann þurfi að leggja fram sérstakt þingmál og að efnt sé til sérstakrar umræðu í þinginu um hvort tilefni sé til og hvort skilyrði laga séu uppfyllt fyrir því að víkja frá fjármálareglunni og hvort ríkisstjórn viðkomandi tíma hafi tekið sér of mikið eða rétt svigrúm til þess að víkja frá fjármálareglunni. Þetta kallar að mínu viti ávallt á sérstaka umræðu og er gott fyrirkomulag.

Það er líka mikilvægt að hafa það í huga í tengslum við skylduna til þess að lækka skuldahlutfall ríkisins að það eitt að viðhalda nafnvirði skuldanna frá ári til árs á tímabili þar sem hagvöxtur er í landinu, þar sem landsframleiðslan er að vaxa, mun leiða til þess að hlutfallið er sífellt að batna vegna þess að skuldirnar sem hlutfall af landsframleiðslu eru á niðurleið. Það mundi teljast lækkun á skuldum ríkissjóðs að láta tryggja slíka framþróun á ríkisfjármálunum. Heilt yfir litið er það langalgengasta leið ríkja til þess að lækka skuldahlutfall sitt að halda einfaldlega skuldunum í skefjum, að láta þær ekki vaxa og fá síðan hagvöxt í framhaldinu, enda eru fá ríki í miklum færum til þess að fara í meiri háttar uppgreiðslu skulda þegar þær hafa náð þeim hæðum sem við ræðum hér.

Þó vil ég nefna að við Íslendingar eigum óvenju góð færi á því að lækka skuldastöðuna þar sem hún er að hluta til komin vegna eignamyndunar í fjármálafyrirtækjum og Landsbankaeignin, sem heimildir hafa staðið til í fjárlögum að selja í nokkur ár. Það er kannski augljósasta tækifæri okkar til þess að selja eign í þeim tilgangi sérstaklega að draga úr skuldsetningu.

Að svo mæltu vil ég þakka fyrir málefnalega umræðu. Ég heyri að málinu er vel tekið og ég vænti góðs samstarfs við alla þingflokka um framhaldið.