143. löggjafarþing — 101. fundur,  30. apr. 2014.

opinber fjármál.

508. mál
[18:36]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka fyrir þessa athugasemd. Hún er alveg gild, þ.e. það skiptir sköpum að fjármálaráðið sé sjálfstætt í sínum störfum og óháð pólitískum afskiptum. Í 13. gr. er í fyrsta lagi reynt að tryggja að í ráðið skuli þeir einir veljast sem geti talist óvilhallir. Það eru gerðar ákveðnar menntunarkröfur með því að fara fram á framhaldsnám á háskólastigi á fræðasviði sem lýtur að hlutverki ráðsins, að þeir sem veljast í ráðið hafi einhverja þekkingu á opinberum fjármálum og jafnframt setur fjármálaráðið sér sjálft starfsreglur.

Hlutverkið er fest í lögum. Það má alveg hafa skoðanir á því hvernig best væri að velja í ráðið. Ég geri ráð fyrir því að þegar til þess kemur muni það grundvallast á samkomulagi í þinginu, þ.e. samtali milli þingflokka um það hvernig best sé að skipa ráðið hverju sinni. Það kemur ekki fyrir fram í veg fyrir ágreining að menn hyggist eiga samtal, en trúverðugleiki þess álits sem fjármálaráðið mun gefa á framkvæmdinni og stefnumörkuninni er undir. Það þjónar best hagsmunum ríkisstjórnarinnar, meiri hlutans á þingi hverju sinni, að skipa þannig í fjármálaráðið að athugasemdir þess séu hafnar yfir gagnrýni eða að skipunin sé augljóslega (Forseti hringir.) fagleg og að taka megi mark á þeim athugasemdum sem þaðan koma. Ef því er varpað fyrir róða með því að fara einhvern veginn á svig (Forseti hringir.) við lögin og markmið laganna tapar fyrst og fremst ríkisstjórnin sjálf á því.