143. löggjafarþing — 102. fundur,  2. maí 2014.

störf þingsins.

[10:31]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Það styttist í þinglok. Hér er gríðarlegur fjöldi mála sem eftir á að afgreiða og ekkert samkomulag er enn í sjónmáli hvað það varðar. Haldið er áfram að skipa nefndir, lítið er að gerast varðandi afnám haftanna og enn fleiri fyrirtæki boða að þau munu fara úr landi. Fyrirhugaðar aðgerðir ríkisstjórnarinnar um niðurgreiðslu lána, ekki bara til þeirra sem þurfa að leysa greiðsluvanda heldur einnig til stóreignafólks sem greiðir jafnvel auðlegðarskatt.

Það var ágætlega orðað í Kjarnanum og tekið dæmi um hækkandi fasteignaverð og væntanleg verðbólguskot sem skuldaniðurfellingin mun koma af stað sem muni nánast éta upp raunverðið. Svo á að redda þeim síðar sem leigja, en með hvaða hætti og hver á að borga þegar búið er að ráðstafa öllum bankaskattinum, ríkisstjórnin leggur til að útgerðin fái á þremur árum um 19 milljarða kr. afslátt á auðlindagjaldi fyrir afnot af fiskimiðunum okkar og erlendir ferðamenn þurfa ekki að borga nema lítinn virðisaukaskatt?

Reyndar hefur fjármálaráðherra sagt að hann ætli að hafa eitt virðisaukaskattsþrep. Það verður til þess að m.a. matvörur hækka og við vitum auðvitað hverjir það eru sem borga eiginlega brúsann á endanum, þjóðin og þá þeir sem minnst hafa verða hvað harðast fyrir því. Verkföll og vinnustöðvanir eru boðaðar sem aldrei fyrr, skorið er niður í velferðarmálum, stórt gat er á lífeyriskerfinu en samt sá forsætisráðherra hér á dögunum ástæðu til að fullyrða að flest benti til þess að svartnættinu væri að slota, en þeir aðilar sem yllu og viðhéldu þessu svartnætti væru þingmenn stjórnarandstöðunnar sem hafa áhyggjur og hafa efasemdir eða athugasemdir við það verklag sem viðhaft er hjá þessari hægri stjórn. Ég tel að það þurfi að samfélagstengja þessa ríkisstjórn.