143. löggjafarþing — 102. fundur,  2. maí 2014.

störf þingsins.

[10:35]
Horfa

Sigrún Magnúsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Öskjuhlíð komst í fréttirnar í liðinni viku vegna óviturlegra aðgerða verktaka. Sögu, menningu og náttúru Öskjuhlíðar á að halda til haga og vernda. Undirrituð flutti tillögu í borgarstjórn Reykjavíkur fyrir aldarfjórðungi síðan um að þessari sögu yrðu gerð góð skil með fræðsluspjöldum o.fl. Gefinn var út í kjölfarið ágætisbæklingur um náttúru og sögu Öskjuhlíðar sem krafa ætti að vera um að menn hefðu við höndina þegar á að framkvæma þar, sama hvaða framkvæmdir það eru.

Öskjuhlíðin er merkilegur staður sem státar af langri sögu tengdri borginni. Þarna var t.d. Víkursel eða sel frá bænum Reykjavík. Þá héldu skólapiltar Lærða skólans mikilvæga fundi í klettunum, staðinn nefndu þeir Beneventum. Benedikt Gröndal orti:

Klettarnir gráir gnæfa

ginnstyrkir upp um hlíð

og björtum blómum þeir skýla

byljum fyrir og hríð.

Þá tengdist Öskjuhlíð hafnargerð borgarinnar fyrir 100 árum en þaðan voru járnbrautarteinar lagðir þvert í gegnum bæinn fyrir fyrstu og einu járnbraut okkar sem flutti grjót úr hlíðinni í höfnina. Síðan kom seinni heimsstyrjöldin og alls kyns minjar vitna um veru manna þar.

Allt þetta þarf að passa og vernda svo að sómi sé að. Umhverfismál og sögulegar minjar skipta líka máli innan borgarmarkanna. Ég vona að ný borgarstjórn taki betur á þessum málum.