143. löggjafarþing — 102. fundur,  2. maí 2014.

störf þingsins.

[10:40]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Það er óhjákvæmilegt að benda hv. síðasta ræðumanni á það að hann er hluti af þessum stjórnvöldum. Úr því að hann var að skora á sjálfan sig að hafa forgöngu um afnám verðtryggingar, bæði á þeim lánum sem tekin hafa verið til þessa og fram í tímann, er rétt að benda þingmanninum á að hér liggur fyrir Alþingi frumvarp til laga um vexti og verðtryggingu. Ég hygg að það sé fremur einfalt fyrir hv. þm. Willum Þór að flytja einfaldlega breytingartillögu við það frumvarp í eigin nafni eða annarra sem kveður á um afnám verðtryggingar, bæði á eldri lánum og þeim sem tekin verða framvegis. Ég held að slíkt ákvæði hljóti að eiga vel heima í lögum um vexti og verðtryggingu. Ég tel að það sé ekkert að vanbúnaði fyrir hv. þingmann að flytja einfaldlega tillögu um það og fá hana samþykkta í þinginu ef þetta er sannfæring hans. Ef hann er að skora á stjórnvöld og sjálfan sig þar með að gera það er það ekkert flóknara en að fara fram á skrifstofu og útbúa breytingartillögu þess efnis við frumvarpið.

Virðulegi forseti. Um þessar skuldatillögur vil ég annars draga fram mikilvægt atriði sem þingið þarf að laga á séreignarsparnaðarmálinu. Fátækasta fólkið í landinu á ekki að fá að spara samkvæmt skuldatillögum ríkisstjórnarinnar. Þeir sem eru með örorkulífeyri eða ellilífeyri, m.a. þeir sem eru á strípuðum bótum eins og við köllum, eiga ekki að geta lagt til hliðar nokkur prósent af tekjunum sínum á húsnæðissparnaðarreikninga eða lagt skattfrjálst til hliðar til að borga niður skuldir sínar. Í rauninni er eini hópurinn í landinu sem á engan aðgang að hafa að þessum skattafsláttum fólkið með örorkulífeyri og ellilífeyri. Mér finnst það vera sjálfsagt sanngirnismál og við eigum að geta sameinast um það þvert á flokka í þinglegri meðferð þessa máls að örorku- og ellilífeyrisþegar (Forseti hringir.) fái líka að nýta sér séreignarsparnaðarleiðina og þá skattafslætti sem felast í henni.