143. löggjafarþing — 102. fundur,  2. maí 2014.

störf þingsins.

[10:42]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (F):

Hæstv. forseti. Í ræðu hér áðan var sagt að samfélagstengja þyrfti þá ríkisstjórn sem nú situr í landinu. Ég held að það séu margir sem hafi þörf fyrir samfélagslega tengingu því að ég er svolítið hugsi yfir ræðu sem ég heyrði í gær á hátíðisdegi verkalýðsins, sem ég vil óska öllum hlutaðeigandi til hamingju með. Það var ræða formanns BSRB. Ræðumaður hélt því fram núverandi ríkisstjórn hefði verið að lækka skatta á þeim sem best stæðu og að skuldaniðurfelling ríkisstjórnarinnar kæmi einnig best þeim hópi.

Nú er það einfaldlega þannig að tekjuskattslækkun sem kom fram í fjárlagafrumvarpi árið 2014 kemur mest til góða meðaltekjufólki, sem er einmitt umbjóðendur þessa ágæta ræðumanns dagsins í gær. Ef það er þannig að ræðumaður dagsins í gær, formaður BSRB, telur að skjólstæðingar hennar séu í hópi best setta fólks á Íslandi þá velti ég því fyrir mér hvernig hún ætlar að smíða trúverðuga kröfugerð.

Það hefur einnig komið fram að 60% af skuldaniðurfellingunni koma til góða heimilum sem eru undir 8 millj. kr. í heimilistekjum, sem eru einmitt eins og tvær fyrirvinnur í félagsskap ræðumannsins frá því í gær. Og ég spyr mig: Á hvaða vegferð er þessi ræðumaður ? Ég bara spyr mig. 80% leiðréttingarinnar koma til góða fólki sem skuldar meira en helming í sínu húsnæði. En ég hjó hins vegar eftir einu. Í ræðu þessa ágæta formanns BSRB í gær var ekki eitt orð um hátt vöruverð á Ísland, það var ekki eitt orð um fákeppni í verslun, ekki eitt orð. Ég er mjög hugsi, herra forseti.