143. löggjafarþing — 102. fundur,  2. maí 2014.

störf þingsins.

[10:47]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Forseti. Alþingi samþykkti í desember sl. að verja 10,2 milljörðum til barnabóta. Sú upphæð er óverðbætt upphæð sem ákveðin var og samþykkt í fjárlögum fyrir árið 2013. Þá höfðu barnabætur verið hækkaðar umtalsvert, enda sýndu greiningar þá eins og nú að það eru barnafjölskyldur sem eru í mestum vanda.

Þegar barnabætur voru gerðar upp árið 2013 kom í ljós að afgangurinn var 262 millj. kr. Nú má ætla, vegna þess að tekjuviðmið og viðmið vegna barna voru ekki uppfærðar, að afgangurinn á árinu 2014 verði enn meiri og tölurnar fyrir fyrsta ársfjórðung ársins 2014 samanborið við árið 2013 sýna þá þróun.

Vakin hefur verið athygli á því í þessum þingsal að barnafátækt er of mikil og skammarlega mikil á Íslandi. Þetta sýna skýrslur og meðal annars hafa hv. stjórnarþingmenn talað um þetta vandamál og hvatt til aðgerða. Ég kalla því eftir því hér og nú, virðulegur forseti, að samstaða verði um samningu frumvarps þar sem viðmið, tekjuviðmið og viðmið vegna barna, verði hækkuð og breytt þannig að sú upphæð sem ætluð var til barnabóta á árinu 2014 renni sannarlega til barnafjöskyldna og þá sérstaklega til þeirra sem verst eru settir. Ef samstaða er um þetta getum við rennt þessu frumvarpi í gegnum þingið og séð til þess að barnafjölskyldur fái að njóta upphæðar sem Alþingi er búið að samþykkja.