143. löggjafarþing — 102. fundur,  2. maí 2014.

störf þingsins.

[10:53]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Sól fer hækkandi á lofti og við erum öll að verða bjartsýn í þingsalnum, heyri ég, með þennan lið og þá ræðumenn sem hér hafa talað. En það er auðvitað full ástæða til. Það er rétt að vekja athygli á því að frá því að núverandi ríkisstjórn tók við hefur okkur tekist að fara betur inn á rétta braut og erum á réttri leið í hagstjórn og því stóra verkefni okkar að ná tökum á fjárhagsstöðu ríkissjóðs. Því ber að fagna. Það er auðvitað grundvallaratriði í þeirri baráttu allri að við náðum að skila hallalausum fjárlögum og ég ber þá von í brjósti að svo verði áfram út þetta kjörtímabil þannig að við náum betri tökum á ríkisrekstrinum.

Verðbólga í landinu er um 2%, hagvöxtur 3% og kaupmáttur launa hefur vaxið um 2,5% á síðustu 12 mánuðum. Þetta er eitthvað sem vekur athygli og ber að fagna og gefur okkur tækifæri til að vera svolítið kát og bjartsýn varðandi framtíðina.

Þá er mjög mikilvægt að í tíð þessarar ríkisstjórnar hafa skattar á yfir 90% allra launþega í landinu lækkað. Það er gott skref og ansi fjarri þeirri stefnu sem síðasta ríkisstjórn viðhafði hér á landi, en engu að síður þurfum við að stíga stærri skref á næstu missirum, taka enn fastar utan um það stóra verkefni að stýra okkar ágæta ríkisrekstri á þann veg að framtíðin verði björt og lykillinn að því að tryggja launþegum og fólkinu í landinu betri lífskjör er að sjálfsögðu það að við náum betri stjórn á því hvernig við förum með almannafé.