143. löggjafarþing — 102. fundur,  2. maí 2014.

skipasmíðar og skipaiðnaður.

[11:18]
Horfa

Þórunn Egilsdóttir (F):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka málshefjanda, hv. þm. Jóni Gunnarssyni, fyrir að hefja hér umræðu um skipasmíðar og skipaiðnað. Þar sem íslenski fiskiskipaflotinn er kominn til ára sinna með allt of háan meðalaldur er fyrirsjáanleg þörf á endurnýjun hans. Samkvæmt til dæmis greiningu Íslenska sjávarklasans standa nú fyrir dyrum endurbætur á skipum íslenskra útgerða sem nema 1–2 milljörðum á ári næstu ár.

Því miður er skipasmíðaiðnaður sem iðngrein að mestu aflagður nema í smíði plastbáta en sú staðreynd að smíði þeirra er möguleg er hvatning um að einnig sé hægt að smíða stærri báta og skip hér á landi. Staðreyndin er sú að vöxtur tæknifyrirtækja innan sjávarklasans hefur verið umtalsverður á síðustu árum, þ.e. um 10–13% á ári. Þá lofar það góðu að mikill vöxtur er í útflutningi á ýmsum tækjum og búnaði fyrir skip. Það bendir klárlega til eflingar á þessu sviði en framtíð fyrirtækjanna veltur að hluta til á vali útgerðarfyrirtækja um val á tæknifyrirtækjum til að sinna fyrirliggjandi endurbótum á flotanum. Takist vel til við samvinnu í þessum verkefnum munu íslenskar skipasmíðar eflast til muna á komandi árum og spara gjaldeyri sem annars færi úr landi. Störf yrðu til sem annars eru unnin utan lands og tekjur ríkis aukast vegna skatta og gjalda í formi tekjuskatts einstaklinga, neysluskatta og tekjuskatts fyrirtækja.

Með aukinni samvinnu smærri tæknifyrirtækja má draga úr þeim viðskiptakostnaði sem fellur á útgerðir þegar verslað er við marga smærri aðila. Húsnæði og aðstaða er enn fyrir hendi á nokkrum stöðum á landinu og því þyrfti ekki mikla fjárfestingu til að hefja smíði skipa og þekking er enn fyrir hendi að nokkru leyti, þótt ekki megi líða mörg ár áður en hún tapast að fullu.

Ætla má að 500 millj. kr. fjárfesting í endurnýjun togara skili sér í að minnsta kosti 450–600 millj. kr. veltuaukningu í hagkerfinu og skapi um 40 ársverk ef valin eru íslensk tæknifyrirtæki. (Forseti hringir.)

Íslensku fyrirtækin bjóða samkeppnishæfar grænar lausnir sem reynst hafa vel um allan heim.