143. löggjafarþing — 102. fundur,  2. maí 2014.

skipasmíðar og skipaiðnaður.

[11:20]
Horfa

Páll Valur Björnsson (Bf):

Hæstv. forseti. Ég vil eins og flestallir byrja á að þakka málshefjanda fyrir þessa umræðu. Þetta er mjög þörf og gagnleg umræða um skipasmíðaiðnaðinn á Íslandi og umræða um sjávarútveg er alltaf mikilvæg. Það hefur komið fram hjá bæði hæstv. ráðherra og þingmönnum sem hafa talað á undan mér að það er gríðarlega mikilvægt fyrir okkur að efla skipaiðnað á Íslandi og auka vinnu í honum.

Það hefur líka komið fram að við búum yfir alveg gríðarlegri þekkingu og eigum gríðarlega öflug fyrirtæki á vegum sjávarútvegsins sem hafa á undanförnum áratugum byggt alla sína reynslu upp í kringum sjávarútveg og mál tengd honum. Ég tel Sjávarklasann eitt öflugasta og glæsilegasta fyrirtæki sem hefur verið sett á laggirnar undanfarið. Þar hefur þetta verið greint mjög mikið. Það er mjög misjafnt og erfitt að keppa við erlendar skipasmíðastöðvar af því að þetta er eitthvað ódýrara þar, en eins og kom fram í máli hæstv. ráðherra áðan er lykilatriði að skapa meiri sátt um útgerðina og sjávarútveginn á Íslandi. Við verðum að taka okkur saman í andlitinu og hætta þessum rifrildum endalaust um sjávarútveginn. Þetta er svo gríðarlega mikilvægt fyrir okkur. Ég tel að við, löggjafarþingið, framkvæmdarvaldið og ekki síst útgerðarfyrirtækin, útgerðarmennirnir sjálfir, skiptum höfuðmáli til að hægt sé að leysa þetta með því að koma saman að borðinu. Það kom líka fram í greiningu hjá Sjávarklasanum að til þess að auka skipaiðnaðinn og efla hann þurfi íslensk útgerðarfyrirtæki að gefa íslenskum fyrirtækjum tækifæri til að vinna að þessu verkefni.

Það er kannski helsti broddurinn í því. Svo þurfa, eins og kemur fram hjá Sjávarklasanum, öll þessi fyrirtæki að auka samstarfið í því sem þau stefna að. Það þarf að gera til þess að geta boðið heildstæðar lausnir fyrir útgerðir. En það er lykilatriði að við, ríkisvaldið, sköpum sátt um útveginn og sjávarútveginn.