143. löggjafarþing — 102. fundur,  2. maí 2014.

skipasmíðar og skipaiðnaður.

[11:29]
Horfa

Páll Jóhann Pálsson (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Jóni Gunnarssyni fyrir að hefja máls á þessu mikilvæga máli. Á Íslandi er mikið hefð fyrir skipasmíðum frá fyrri öldum, allt frá 19. öld. Sögur fara af því að hér hafi verið smíðaðir teinæringar, áttæringar, sexæringar, fjögurra manna för og tveggja manna för. Um miðja 19. öld komu þilskipin þar sem bylting varð í siglingum og veiðum landsmanna. Áfram héldu Íslendingar að smíða skipin. Fyrst voru þetta tréskip, þessir bátar sem við köllum, sem þróuðust svo yfir í að vera stálskip. Hér voru margar stöðvar. Við getum nefnt Njarðvík, Stykkishólm, Siglufjörð og Seyðisfjörð. Þetta var almennt um allt land. (Gripið fram í: Ísafjörður.) Ísafjörður, já, við getum lengi talið, það var allt í kringum landið. Hefðin er fyrir hendi.

Svo komu plastbátarnir og ekki létum við deigan síga þar. Eins og fram hefur komið höfum við smíðað yfir 400 plastskip sem hafa verið flutt út. Íslensk vörumerki, t.d. Cleopatra, eru þekkt um allan heim og er framleiðslan flutt til fjögurra heimsálfa.

En stálskipaiðnaðurinn á í vök að verjast núna. Hvað getum við gert til að hefðin og þekkingin tapist ekki? Þessi fyrirtæki hafa verið í alþjóðlegri samkeppni um ýmsan tæknibúnað. Vegna fjárfestingarsamninga sem er verið að gera við erlenda aðila sem koma hingað með fjármagn dettur mér helst í hug að beina til iðnaðarráðherra (Forseti hringir.) þeirri spurningu hvort við getum ekki skoðað einhverja álíka fjárfestingarsamninga fyrir þau fyrirtæki hér innan lands sem (Forseti hringir.) eru í alþjóðlegri samkeppni. Er ég þá að (Forseti hringir.) miða við skráð gengi, (Forseti hringir.) á hvaða gengi menn flytja út og inn sínar vörur.