143. löggjafarþing — 102. fundur,  2. maí 2014.

skipasmíðar og skipaiðnaður.

[11:32]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Ég þakka málshefjanda fyrir þessa umræðu. Það vill svo skemmtilega til að ég var á sumardaginn fyrsta á Vorkomu Akureyrarstofu þar sem veittar eru ýmsar viðurkenningar og við sama tækifæri er yfirleitt tilkynnt hver er bæjarlistamaður. Þá fékk Slippurinn sérstaka viðurkenningu á Akureyri, athafnaverðlaun Akureyrar. Í fyrra fékk Seigla sérstaka viðurkenningu frá Akureyrarstofu á sumardaginn fyrsta fyrir nýsköpun og frumkvöðlastarf.

Ég var svo heppin að fá að heimsækja Slippinn, maður gerir það ekki sem venjulegur bæjarbúi en fyrir framboðið kíktum við á þennan vinnustað, og það kom mér gríðarlega mikið á óvart hvað hann er öflugur. Ég vissi að hann væri mikilvægur og stór, en þarna vinna 160 manns, ég held að veltan sé einir 2 milljarðar og erlendum verkefnum hefur fjölgað. Slippurinn hefur verið að kaupa fyrirtæki og gengur bara mjög vel. Það hangir saman við öfluga útgerð á Akureyri, það skiptir máli og síðast en ekki síst skiptir öflugt verknám máli.

Ég vil aðeins koma inn á það á þeim stutta tíma sem ég hef að við verðum að passa upp á að við menntum fólk til starfa í þessum geira til að við höldum störfunum hérna. Þegar hv. fjárlaganefnd fór í Verkmenntaskólann um daginn heyrðum við einmitt sögur af því að þeir ættu í vandræðum með að fjármagna nýjustu tæki, löggildingu á vélstjóranáminu og annað slíkt. Við horfum stundum á það í menntakerfinu hvaða nemendur eru ódýrastir meðan þeir eru í skóla. Auðvitað kosta þeir sem fara í verknámið meira en þeir fara margir hverjir, og flestir, beint út í atvinnulífið og byrja að skila skatttekjum.

Það er gríðarlega mikilvægt að við gleymum því ekki. Við þurfum að setja peninga í verknámið.