143. löggjafarþing — 102. fundur,  2. maí 2014.

skipasmíðar og skipaiðnaður.

[11:36]
Horfa

iðnaðar- og viðskiptaráðherra (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingheimi kærlega fyrir þessa uppbyggilegu umræðu. Það er afar gott að sjá þennan samhug og samstarfsvilja og hversu sammála við erum í þessu máli um þau tækifæri sem þarna bíða okkar og það að við þurfum að taka höndum saman og kortleggja þau. Það væri kannski rétt sem niðurstaða af þessari umræðu að við hugsuðum það aðeins frekar og jafnvel að við tækjum höndum saman, skipuðum nefnd til að draga saman þá aðila sem þarna eru starfandi og okkur í stjórnmálunum til að móta frekari stefnu í þessum málum.

Ég get sagt hér að ég mun beita mér fyrir því að slíkt starf verði sett á laggirnar hið allra fyrsta vegna þess að ég tel gríðarleg tækifæri, eins og hér hefur komið fram, bæði í hefðbundna skipasmíðageiranum og á sviði þessa klasasamstarfs og tæknifyrirtækjanna sem eru ekki bara í sjávarútveginum, til að auka verðmæti og draga hingað starfsemi sem annars verður ekki hér.

Ég ætla að láta það verða lokaorð mín í þessari umræðu að leggja til að við tökum höndum saman. Ég mun kalla fólk að þessu borði hið fyrsta til að taka frekari umræðu og hefja kortlagninguna.