143. löggjafarþing — 102. fundur,  2. maí 2014.

framkvæmdarvald og stjórnsýsla ríkisins í héraði.

250. mál
[12:06]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka formanninum fyrir kynningu hennar á nefndarálitinu. Við fórum í sameiningu á skattstjóraembættunum á síðasta kjörtímabili og ég kom að þeirri vinnu sem formaður efnahags- og viðskiptanefndar. Þar tókum við þann kostinn að gera landið einfaldlega að einu umdæmi þó að starfsstöðvar væru hingað og þangað úti um landið. Það var einfaldlega ákveðið að standa vörð um þær, ekki að fækka störfum úti á landi eða draga úr því sem menn voru að gera á stöðvunum heldur jafnvel þvert á móti að auka það, en gera þetta að einu umdæmi engu að síður. Ég vil inna þingmanninn eftir því hvort það hafi ekki verið rætt að fara einfaldlega lengra en gert er ráð fyrir í þessum tillögum.

Gallinn við það er sá að þá fækkar fyrirmönnum í héraði og ég vil alls ekki gera lítið úr sjónarmiðum sem lúta að því. Þá finnst manni auðvitað eðlilegt þegar verið er að sameina og fækka úti á landi að kallað sé eftir því að það sama gildi um báknið í Reykjavík og stofnanirnar sem við erum með hér. Það sem slær mann í þessum tillögum er að hagræðingin og samlegðin liggur auðvitað svo greinilega í því að sameina ríkislögreglustjóraembættið og lögreglustjórann á höfuðborgarsvæðinu. Það eru hin stóru embætti þar sem útgjöldin eru, þar sem samlegðaráhrif eru veruleg, hagræðingartækifæri mikil og samræming í störfum og hagsmunirnir miklir af því að sameina.

Hér er gert ráð fyrir að fækka og sameina umdæmi en hafa áfram allar þessar silkihúfur í Reykjavík í raun og veru að óþörfu. Við þekkjum það hvernig þetta hefur þróast hér að embætti ríkislögreglustjóra, sem er frekar lítil stjórnsýsluskrifstofa til dæmis í Noregi, í miklu stærra landi en okkar, hefur bara vaxið og vaxið. Þá spyr ég þingmanninn hvort ekki (Forseti hringir.) sé eðlilegt að horfa til sameiningar á stærstu embættunum (Forseti hringir.) þegar menn horfa til þess að sameina þau smæstu eins og hér er verið að gera.