143. löggjafarþing — 102. fundur,  2. maí 2014.

framkvæmdarvald og stjórnsýsla ríkisins í héraði.

250. mál
[12:09]
Horfa

Frsm. allsh.- og menntmn. (Unnur Brá Konráðsdóttir) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Já, sú umræða hefur mjög oft heyrst en við í nefndinni fórum í sjálfu sér ekki djúpt í hana enda vorum við að einbeita okkur að þeirri tillögu sem var í kynningu og hafði komið fyrir þingið frá ráðherranum.

Það tókst vel til varðandi sameiningu skattstjóranna. Hins vegar ber á það að líta að um er að ræða frekar eðlisólíka starfsemi þegar við erum að tala um þjónustu þar sem borgararnir hver um sig eiga mjög oft erindi. Þess vegna er ekki hægt að segja að þetta séu sambærileg embætti vegna þess að við erum að tala um í sambandi við sýslumannsembættin þjónustustofnanir sem borgararnir eiga mjög oft erindi til á meðan skatturinn er í flestum tilvikum með starfsemi sína að mestu leyti á netinu.

Varðandi lögregluna er það alþekkt umræða, þ.e. sú umræða sem hv. þingmaður vakti athygli á, að hægt sé að leggja niður embætti ríkislögreglustjóra. Ég er einfaldlega alfarið á móti þeirri hugmyndafræði, enda erum við með það fyrirkomulag eins og er á Norðurlöndunum, til dæmis í Noregi eins og hv. þingmaður benti á, að við erum með sjálfstæða lögreglustjóra sem sinna verkefnum á sínum svæðum og síðan ríkislögreglustjóra sem hefur mikilvægu samræmingarhlutverki að gegna. Ég tel að með þeim breytingum sem við ætlum okkur að lögfesta hér muni það sýna sig hversu mikilvægt embætti og mikilvæg verkefni það eru sem ríkislögreglustjóri fer með.