143. löggjafarþing — 102. fundur,  2. maí 2014.

framkvæmdarvald og stjórnsýsla ríkisins í héraði.

250. mál
[12:16]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir framsöguna. Ég er afar ánægð með þessi tvö frumvörp, heilt yfir eins og sagt er. Mig langar að halda áfram umræðunni um Lögregluskólann sem snertir svolítið starfið sem ég var í áður en ég kom hingað. Ég sat ráðstefnu í fyrrasumar, held ég að það hafi verið, þangað sem komu allir lögreglustjórar á Norðurlöndunum og hafði ég afar gaman af. Ég held að það sé alveg hárrétt að það er draumur þeirra að námið verði meira metið en gert er í dag. Hvar því er best fyrir komið má velta fyrir sér, hvort það er undir menntakerfinu almennt eða undir ríkislögreglustjóra.

Mér finnst hins vegar afar athugunarvert núna að ekki sé að minnsta kosti krafist stúdentsprófs en það þarf að vera búið að ljúka tveimur árum til námsins. Ég hef líka áhyggjur af aldrinum, þ.e. unga fólkinu sem er fara í skólann um tvítugt. Ég er ekkert að segja að það geti ekki spjarað sig ágætlega heldur er ég fyrst og fremst að hugsa um þá áskorun sem felst í því sem takast þarf á við í starfinu. Hér er talað um að erfitt sé að fá ungt fólk til starfa á landsbyggðinni. Það er alveg rétt, það er mikið um fullorðna lögreglumenn, ég held að það starfi ekki mjög margar konur á landsbyggðinni. Ég veit því ekki hvort það er af hinu góða að það verði svona ungt fólk, og ég spyr hvort hv. þingmaður deilir því með mér.

Síðan langaði mig að spyrja, af því að hún kom inn á þetta með löglærða fulltrúa á allar starfsstöðvar: Eru einhverjar litlar starfsstöðvar til staðar í dag sem ekki hafa löglærða fulltrúa? Mundi þetta geta þýtt flutning fólks á milli embætta eftir að þessi lög taka gildi, (Forseti hringir.) af því að hér kemur fram að helst eigi enginn að missa vinnuna við þetta ?