143. löggjafarþing — 102. fundur,  2. maí 2014.

framkvæmdarvald og stjórnsýsla ríkisins í héraði.

250. mál
[12:18]
Horfa

Frsm. allsh.- og menntmn. (Unnur Brá Konráðsdóttir) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Varðandi Lögregluskóla ríkisins held ég að við séum einfaldlega sammála. Auðvitað má alltaf og þarf að fara yfir það hver inntökuskilyrðin eiga að vera. Það hefur mikið verið rætt um kröfuna um stúdentspróf, en það er þannig að ef námið fer á háskólastig þarf að breyta þeirri kröfu. Eins er það með aldurinn, til þess að sinna þessum störfum er nauðsynlegt að hafa til að bera ákveðinn þroska og þess vegna er inntökuferlið frekar erfitt. Það þarf að koma fyrir nefnd og standast ákveðin próf.

Ég fór rétt fyrir þennan þingfund yfir samanburð á inntökuskilyrðum í skólana á Norðurlöndunum. Það er mjög misjafnt hversu mikil áhersla er lögð á líkamlega þáttinn, hann er auðvitað líka mikilvægur, og misjafnt hvort gerð er krafa um getu í upphífingum o.s.frv. Í Noregi er lögð mikil áhersla á sund. Þetta er því svolítið mismunandi.

Ég held að í þessum framtíðarpælingum öllum um Lögregluskólann munum við horfa til Norðurlandanna eins og við gerum og höfum alltaf gert í málefnum lögreglunnar. En ég hef fulla trú á því að það verði breytingar núna, að við munum horfa fram á að menntunin verði efld og að draumur Landssambands lögreglumanna um að þetta verði á hærra stigi verði einhvern tíma að veruleika. Þótt skrefið verði ekki stigið til fulls í einu lagi væri það gott inn í framtíðina að viðhalda þeim draumi og vinna í þá átt. Fyrsta skrefið er að endurskoða skipulag og starfsemi skólans í starfshópnum sem nefndin leggur til í bráðabirgðaákvæðinu og að þær (Forseti hringir.) hugmyndir liggi fyrir sem fyrst, en við gerum ráð fyrir að svo verði 1. ágúst 2014 sem er tiltölulega stuttur tími.