143. löggjafarþing — 102. fundur,  2. maí 2014.

framkvæmdarvald og stjórnsýsla ríkisins í héraði.

250. mál
[12:20]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka þingmanninum fyrir þessi svör. Eins og hún sagði held ég að við séum nokkuð sammála og einmitt um þetta með þroskann til þess að takast á við það sem felst í lögreglustarfinu. Maður mundi ætla að starfið krefjist svolítillar lífsreynslu, a.m.k. sé miðað við þá sem ég hef rætt þessi mál við. Fólk þarf þó líka að fá að þroskast í gegnum störf, vissulega.

Ég ítreka aftur fyrri spurningu mína um löglærðu fulltrúana og bið hv. þingmanninn að svara því á eftir. Hér er talað um að verkefnisstjórn eigi að leggja það niður fyrir sér hvar og hvernig skipulagið eigi að vera á sýslumönnunum annars vegar og lögreglunni hins vegar og mig langar til þess að spyrja: Hvað ef ekki næst samstaða eða niðurstaða um staðsetningu innan umdæmanna, hvar þetta er staðsett á landinu? Hvað gerum við ef verkefnisstjórnin nær ekki saman eða ef hún kemur með tillögu sem ekki næst samkomulag um? Hvar stöndum við?

Hér er talað um verkefni, og vitnað í verkefni sem hafa verið flutt og er rétt að þau hafa tekist ágætlega, og um að það eigi að vinna að því að finna út hver þau gætu verið. Er eitthvað sem hv. þingmaður veit af nú þegar, verkefni sem gætu komið til greina að flytja út til þess að styrkja embættin, af því að við höfum mikið heyrt um að styrkja hinar ýmsu opinberu stofnanir og svo hefur fjarað undan því?