143. löggjafarþing — 102. fundur,  2. maí 2014.

framkvæmdarvald og stjórnsýsla ríkisins í héraði.

250. mál
[12:22]
Horfa

Frsm. allsh.- og menntmn. (Unnur Brá Konráðsdóttir) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Fyrst aðeins um verkefnin. Ég get ekki hér og nú nefnt nein verkefni vegna þess að ég vil ekki vekja væntingar um eitthvað sem verður síðan kannski ekki hægt að klára hratt og vel. En það er algjörlega ljóst að það er vilji til þess hjá innanríkisráðherra að þetta skili sér alla leið. Þannig hefur þetta verið kynnt og það er alveg ljóst að það spilar í rauninni stærsta þáttinn í því að þessi frumvörp hér njóta stuðnings víðast hvar á landinu, vegna þess að við ætlum okkur að tryggja að þetta skili sér. Þar kemur að okkur tveimur og öllum öðrum þingmönnum sem sitja í þingsalnum að fylgja því eftir og þess vegna kemur nefndin með tillögu um að það verði aðgerðaáætlun á pappír svo hægt sé að fylgjast með.

Þingmaðurinn spyr: Hvað ef ekki verður samstaða um hvar aðalstöðvarnar eiga að vera? Auðvitað vonast maður til þess að menn nái að tala sig niður á niðurstöðu. En ef á reynir trúi ég því að það verði einfaldlega ráðherrans að reyna að koma með tillögu um endanlega niðurstöðu.

Varðandi löglærðu fulltrúana vorum við sérstaklega með Patreksfjörð í huga vegna þess að þar kom upp við breytingarnar að vandræði voru við að manna og auðvitað getur það alltaf gerst. En í nefndarálitinu lýsum við hreinlega vilja okkar, hvernig við sjáum þetta fyrir okkur. Meginmarkmiðið er að þjónustan minnki ekki, skerðist ekki, og það hvort löglærður fulltrúi sitji alla daga frá 8–17 í skrifstofustólnum á starfsstöðinni er kannski ekki heila málið heldur að það sé alltaf tryggt að fólk geti nálgast löglærðan fulltrúa í málum sínum, að það (Forseti hringir.) sé tæknilega framkvæmanlegt.