143. löggjafarþing — 102. fundur,  2. maí 2014.

framkvæmdarvald og stjórnsýsla ríkisins í héraði.

250. mál
[12:25]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Við ræðum hér tvö mál sem eru sett saman á dagskrá, þ.e. framkvæmdarvald og stjórnsýsla ríkisins í héraði, heildarlög, og hins vegar lögreglulög þar sem fjallað er um fjölda lögregluumdæma.

Það hefur komið fram hjá framsögumanni málsins, hv. þm. Unni Brá Konráðsdóttur, að við skiluðum sameiginlegu nefndaráliti, hv. allsherjar- og menntamálanefnd, og málið hefur fengið afar vandaða og ítarlega umfjöllun. Þó að ágreiningur hafi verið um ýmis atriði og vangaveltur um mismunandi lausnir hafa menn talað sig til niðurstöðu. Það þýðir að ástæða er til að fara yfir þau mál og þær hættur sem kannski eru í sumum afgreiðslum eða þá fyrirvara sem menn höfðu í umræðunni til að þær vangaveltur sem þar komu fram séu að minnsta kosti til skjalfestar hér.

Nefndarálitið er tvískipt, fyrri hlutinn er um lögregluna og seinni hlutinn um sýslumannsembættin, hægt er að lesa þetta sem slíkt. Það sem er aðalatriðið í þessu máli og mér finnst mikilvægt að koma að strax, þ.e. að ég er mjög sáttur við umgjörðina. Ég held að menn geti sagt: Þetta er mjög mikilvægt skref, við höfum náð stórum áfanga í sameiningu á embættum, skipulegri stjórnsýslu og öðru slíku.

Það sem allt þetta veltur á er framkvæmdin, hvernig tekst að útfæra þetta. Ýmsum málum er varpað til ráðuneytisins og hæstv. ráðherra. Það er ekki það að ég treysti ekki þeim aðilum til að vinna úr því en það skiptir mestu máli um það hvernig til tekst hvernig haldið verður utan um þau mál. Það eru mjög víðtækar reglugerðarheimildir en bara það hvar lögreglustjóri verður í hverju umdæmi og hvar sýslumaður verður, það er aðalágreiningsefnið í þessu landi og verður í hverju héraði.

Þess vegna skiptir gríðarlega miklu máli að vandað sé til þeirrar ákvörðunar, að hafið verði yfir allan vafa að sú ákvörðun sé tekin eins faglega og hægt er, það sé gert í samráði við starfsmenn, eins og kemur fram í nefndarálitinu og breytingartillögum, og að sveitarfélögin séu höfð með í þeim ákvörðunum. Vísað er til samtaka sveitarfélaga í hverju héraði, það er ekki talið nægjanlegt að hafa samráð við Samband íslenskra sveitarfélaga, því var breytt hjá okkur í nefndinni, og ég held að það atriði skipti gríðarlega miklu máli. Ef upp kemur tortryggni um pólitíska togstreitu, hagsmunagæslu fyrir ákveðin svæði, er hægt að eyðileggja jafn gott mál og þetta. Ég vil nefna þetta strax vegna þess að þarna skiptir gríðarlega miklu máli að við vöndum okkur.

Oft er nefnt í sambandi við mál af þessu tagi að markmiðið sé að efla embættin. Það virkar stundum þannig að einungis sé verið að segja þetta til að friðþægja fólk, að verið sé að draga úr þjónustu og að færa saman starfsstöðvar, þær verða veigaminni en þær voru áður. Nú verður einn sýslumaður í umdæminu og síðan verða starfsstöðvar, hversu öflugar verða þær?

Mjög skýrt er tekið á því í nefndarálitinu að markmiðið er að efla embættin. Þá segi ég aftur: Það veltur á framkvæmdinni hvernig til tekst. Tekst okkur að efla embættin, tekst okkur að tryggja að starfsstöðvarnar verði áfram og deilt verði út á landsbyggðina, og út um allt land, tilteknum verkefnum sem geta hentað á hverjum stað? Við vitum að sýslumannsembættin eru umboðsmenn ríkisins á viðkomandi svæðum og oft hefur verið rætt um að starfsstöðvarnar geti líka sameinast með einhverjum hætti sveitarfélögunum þannig að þarna verði starfsstöðvar fyrir ríka opinbera þjónustu, hin svokallaða „allt á einum stað“-þjónusta, sem oft hefur verið rætt um. Þarna eru engar tillögur og það er alveg rétt sem framsögumaður, hv. þm. Unnur Brá Konráðsdóttir, sagði hér í kynningu sinni að ekki er hægt að nefna einstök tilfelli, vegna þess að þá fara menn að togast á o.s.frv. En sett er mjög skýrt ákvæði í nefndarálitið um að fram eigi að fara gerð áætlunar, aðgerðaáætlunar, hún tímasett, og tilgreint hvaða verkefni eigi að færa út.

Þarna komum við að öðrum punkti sem skiptir öllu máli: Hvernig er þetta framkvæmt? Hvaða ákvarðanir liggja þarna á bak við, hvað skynsemi verður í því þegar farið verður að togast á um hvað fer til hvers umdæmis o.s.frv.? Það má ekki vera þannig að þarna ráði pólitíkin, eins og stundum hefur verið, menn hafa getað séð hvernig störfum á landsbyggðinni hefur fjölgað á ákveðnum svæðum tengt ákveðnum ráðherrum. Við þurfum að reyna að komast yfir þann þátt og reyna að skoða þetta faglega, jafnvel í tengslum við Byggðastofnun og aðra, hvernig eigi að byggja þjónustuna í landinu upp með sem skynsamlegustum hætti út frá þjónustuþörfinni en líka út frá byggðasjónarmiðum og störfum, hvernig þau dreifast í landinu. Þetta vildi ég nefna sérstaklega í byrjun.

Í þriðja lagi: Hvernig verður farið með starfsmannamálin? Hér var vitnað í ríkisskattstjóra og hvernig staðið var að málum þar. Það er oft nefnt sem dæmi um það hvernig sérlega vel hefur tekist að breyta stofnun. Nánast án þess að nokkur yrði var við það var allt í einu búið að sameina þetta allt í eitt embætti með starfsstöðvum úti um allt land, og nokkuð langur tími leið þar til maður áttaði sig á fyrirkomulaginu. Maður hafði samband við skattstofuna á Vesturlandi, sem er á Akranesi — bíddu, já, hún vinnur ekkert sérstaklega með málefni framteljenda á Vesturlandi. Hún vinnur að ýmsum verkefnum sem tilheyra landinu í heild og svarar ekkert sérstaklega fyrir skattgreiðendur í héraði. Því er stjórnað af einhverri annarri stofnun. Þarna komum við líka inn á það hvernig farið verður með kjör þeirra sem eru starfandi á þessum stofnunum í dag. Það er ágætisákvæði hér sem ég ætla að fara betur yfir á eftir um það hvernig farið verður með starfsmannamálin.

Það hefur verið gagnrýnt í umræðunni — og ég man eftir því að eftir ríkisstjórnarskiptin komu fram athugasemdir frá einstökum þingmönnum í tengslum við umræðu um hagræðingarvinnuna — að lítið gagn væri af hagræðingu ef í lögum stæði svo að allir ættu að halda vinnunni. Málið er ekkert svona. Menn taka þetta í gegnum starfsmannaveltu, leysa þetta með endurnýjun, taka breytinguna í hægum skrefum, gera hana á manneskjulegan hátt. Í stóru ráðuneyti eins og ég var með náðist 20% hagræðing á mjög skömmum tíma og í býsna góðri sátt um hvernig málin voru unnin. Þannig verður þetta að vera og þar veldur hver á heldur. Ég treysti á að þarna verði farið vel með. Það er sérstakur kafli í nefndarálitinu sem fjallar um þetta eins og framsögumaður kom inn á, lokakaflinn í nefndarálitinu, sem er um sameiningu ríkisstofnana. Þar er vitnað í mjög vandaðar skýrslur, meðal annars í skýrslu frá fjármálaráðuneytinu sem gefin var út 2008, þar sem farið er yfir hvaða skilyrði þurfi að uppfylla þegar unnið sé að sameiningu, hvers þurfi að gæta, hverju þurfi að huga að.

Einnig er vitnað í skýrslu sem er mjög mikilvæg. Í staðinn fyrir að vera að þvarga um umdæmi og eitthvað slíkt fóru menn í að skilgreina löggæsluna á Íslandi og reyna að meta hver þörfin væri. Ljóst var að menn þurftu að fara í mikinn niðurskurð eftir hrunið og þá kom sú umræða upp hvort menn væru með nægjanlega löggæslu á ákveðnum svæðum. Þá kom umræðan um stóru umdæmin, nálægð lögregluembættanna, hvernig lögreglan ætti að sinna þjónustu og fara um þessi stóru svæði. Það var dregið saman í bensínkostnaði, bílakostnaði og öðru slíku en síðan sett fram í skýrslu hver þörfin væri til lengri tíma. Nokkuð góð þverpólitísk samstaða tókst um það hver væri þörfin og hvert umfang löggæslu þyrfti að vera í landinu. Það er gott dæmi um að menn vinna forsendurnar fyrst og þurfa þá ekki að vera að þvarga um það þegar farið er í að deila út viðbótarlögreglustörfum og skiptingu á embættum. Þetta vildi ég segja í byrjun vegna þess að mér finnst skipta máli að draga þetta fram. Framkvæmdin á þessu og ásjónan á því, samráðið, hvernig menn leita til fólks, hverjir verða með, það er það sem mun ráða hvort þessi framkvæmd gengur vel eftir.

Það kemur skýrt fram í báðum þessum frumvörpum að meginmarkmiðið, þegar við tökum lögreglulög frumvarpsins, er að efla lögregluna og gera hana betur í stakk búna til að sinna sínum lögbundnu skyldum.

Það er rétt, sem kom fram hér í andsvörum á milli framsögumanns og hv. þm. Helga Hjörvar, að við fórum ekkert í að skoða stöðu ríkislögreglustjóraembættisins. Áhugavert er, kannski í tengslum við færslu á verkefnum, að skoða sum af þeim verkefnum sem eru undir ríkislögreglustjóra, hvort umsjón með bílaflotanum gæti til dæmis heyrt undir eitthvert ákveðið lögregluumdæmi frekar en að vera undir ríkislögreglustjóra sérstaklega þó að þeir hefðu yfirumsjónina. Alþjóðaþjónustan, deildin, má hún vera undir Suðurnesjunum þar sem aðalaðkoma inn í landið er og þar sem allir koma og fá sína fyrstu móttöku? Milli 95 og 100% farþega til landsins fara í gegnum Keflavík á leið inn í landið, Norræna kemur á Seyðisfjörð en mikill meiri hluti fer í gegnum Keflavík. Á alþjóðadeildin þá að vera staðsett þar? Þar með leysum við þessi byggðasjónarmið og kannski í rökréttu samhengi við verkefnið hvar vinnan þarf að fara fram.

Fyrsti kaflinn í nefndarálitinu er um lögregluumdæmin og þar er stærsta ágreiningsefninu vísað til reglugerðar. Það var augljóst í öllum umsögnum og öllum þeim umræðum sem þar áttu sér stað að ákveðin tortryggni ríkir varðandi það hverjir kæmu að ákvarðanatökunni. Verða það pólitískir gæðingar í ákveðnum hluta umdæmis sem gætu beitt sér gagnvart ráðherra og ráðið því hvar sýslumannsembætti verður og hvar lögregluumdæmi? Tryggja þarf að þetta sé gegnsætt ferli og að samráðið sé mjög skýrt og formlegt, að það séu sveitarfélögin sem eru aðilar. Það sé líka haft samráð við lögregluembættin sjálf þannig að færð séu rök fyrir því hvers vegna ákveðin niðurstaða fæst á hverjum stað. Það er einmitt talað um það, bæði um sveitarfélög og um lögreglustjóra.

Eitt af því sem kom til álita þegar verið var að ákveða lögregluumdæmin og var mjög mikið rætt var það að í frumvarpinu í upphafi var ekki gert ráð fyrir að Vestmannaeyjar yrðu bæði með sýslumann og lögreglustjóra. Nefndin breytir því og bætir við og það mál var rætt gríðarlega mikið, hvaða rök gætu verið fyrir þessu. Að lokum féllust nefndarmenn, og þar með talinn sá sem hér stendur, á að samgönguþátturinn væri enn það óljós hvað varðar Vestmannaeyjar að réttlætanlegt væri að hafa þá með sérákvæði.

Nefndir voru staðir eins og Patreksfjörður og óskir komu frá Seyðfirðingunum, frá Höfn í Hornafirði og frá fleiri aðilum komu ábendingar um að landfræðilega væru þessir staðir hálfgerð eylönd og þar af leiðandi erfitt að reikna með að þjónustan yrði næg ef hún yrði ekki á viðkomandi stöðum. Þess vegna voru mjög sterk rök á móti því að taka Vestmannaeyinga út fyrir sviga, það mundi þá eyðileggja hugmyndina og menn dyttu bara niður í að vera með fjölda embætta eftir sem áður. En niðurstaðan varð þessi, hún er í sjálfu sér málamiðlun, þarna er ákveðin þjónusta færð, en ég held að hún sé réttlætanleg miðað við ástandið eins og það er í dag. Við skulum vona að samgöngur við Vestmannaeyjar leysist með fullnægjandi hætti og Landeyjahöfn komist í full not þannig að ekki þurfi að taka sérstakt tillit til landfræðilegrar legu Vestmannaeyja í umdæmi Suðurlands, bæði hvað varðar ýmsa þjónustu og þetta.

Eitt af því sem lítið var rætt í kynningunni, og er annar kafli í nefndarálitinu, eru greiningardeildir. Mjög stórt ákvæði var hér áður um að greiningardeildir ættu að vera hjá öllum lögregluembættum og talað um að bregðast við hryðjuverkum og skipulegri glæpastarfsemi. Það varð niðurstaðan að þar sem þessi heimild hefði aldrei verið notuð í sjálfu sér væri ástæðulaust að stofna þessar deildir úti um allt, og því ákveðið að fella þetta ákvæði út. Eftir sem áður verður verkefninu sinnt og þá af ákveðnum embættum. Ég held að sú ákvörðun hafi verið góð og ekki hvað síst í samhengi við þá umræðu sem hefur átt sér stað og á sér stað á hverjum degi, bæði hér á Íslandi og erlendis, um aðgengi að upplýsingum og upplýsingasöfnun. Tæknin býður upp á að nánast er hægt að sækja hvaða upplýsingar sem er, fylgjast með hverjum sem er. Við fáum fréttir á nánast hverjum degi af misnotkun á þessu kerfi, bæði hér og erlendis. Það þarf að búa til umhverfi þar sem traust getur ríkt og að menn geti verið vissir um að ekki sé sérstaklega verið að fylgjast með þeim eða njósna um þá nema að undangengnum úrskurði og með röksemdum og öðru slíku og að þessi aðgangur sé mjög þröngur. Ég held því að það sé skynsamlegt að takmarka heimild til að stofna greiningardeildir úti um allt land með víðtækum heimildum til að safna upplýsingum.

Það var líka rætt mikið um hæfisskilyrði og eitt af því sem skipti miklu máli, og var mjög skemmtilegt í umræðunni, voru vangaveltur um það hvort það hefði áhrif á kynjasamsetningu í lögreglunni ef lögregluembættið færi að ráða lögregluþjóna sjálft. Nýlega er komin út skýrsla sem var býsna mikill áfellisdómur um stöðu kvenna innan lögreglunnar. Menn hafa verið að bregðast við því og allir tekið afar jákvætt í að þar þyrftu að verða mjög róttækar breytingar. Þess vegna voru uppi þau sjónarmið að skynsamlegra væri að hafa miðlæga stjórnun á þessu þannig að menn gætu jafnvel tryggt að embættin tækju til sín starfsmenn til að rétta kynjahlutfallið, það væri erfiðara fyrir þá í návíginu um einstök embætti. Niðurstaðan varð engu að síður sú að fela lögreglustjóranum að ráða viðkomandi aðila en vera með hæfnisnefnd, og ég legg mjög mikla áherslu á að menn fylgi því stíft eftir. Við þurfum að sjá að lögreglustarfsmenn endurspegli samfélagið í heild, að þar séu þeir sem eru af erlendum uppruna, að þar séu jafnt karlar og konur og ólíkir hópar með ólíka reynslu sem komi inn í lögregluliðið. Þannig búa menn til jarðveg fyrir þau mannréttindi sem þurfa að vera tryggð í öllum störfum lögreglunnar.

Þetta með hverjir eigi að stjórna almannavarnanefndunum, ég styð það heils hugar að það verði undir lögreglustjórum fyrst verið er að skipta þessu upp, að það verði ekki undir sýslumönnum. Það er eðlilegra að þeir sem eru með lögreglumálin á hverjum stað stýri því.

Við ræddum líka mikið Lögregluskólann. Ég er þeirrar skoðunar að almennt eigi að færa hann undir menntamálaráðuneytið. Námskrána er síðan hægt að vinna í samráði við lögregluna. Við förum aðeins dempaðri leið, svona millistig, sem er fólgin í því að ríkislögreglustjóri sjái um skólann en geti útvistað honum til annarra skóla, til að sinna þeirri kennslu. Þetta eru hlutir sem þarf að ræða betur. Það er ekki aðalatriðið hvort þetta á að vera á háskólastigi eða ekki. Aðalatriðið er hvernig umbúnaðurinn er um menntunina. Fram komu mjög rík sjónarmið líka um það sem við höfum séð í öllum geirum, þ.e. hvar kennslan fer fram. Það hefur áhrif á hverjir sækja kennsluna. Þá erum við aftur komin að landsbyggðarsjónarmiðum. Á Akureyri er háskóli og verið er að sinna kennslu úti um allt land. Það hefur gríðarleg áhrif á framboð af starfsfólki á viðkomandi svæðum. Þannig þarf það að vera með lögregluna, að hún eigi gott aðgengi, hún þarf að tæknivæðast, bjóða upp á fjarnám og tryggja að hægt sé að stunda þetta nám óháð því hvaðan menn koma og hvar þeir búa. Aftur í samhengi við það sem ég var að ræða áðan þá þarf lögregluliðið í heild að endurspegla fjölbreytnina í landinu. Það er líka landafræði hvað það varðar hvaðan menn koma, hvaða lífsreynslu menn hafa, að það sé sem fjölbreyttast innan hópsins.

Varðandi umdæmi sýslumanna, þar sem er hitt frumvarpið sem varðar framkvæmdarvald og stjórnsýslu í héraði, þá var ég nú búinn að ræða þetta með kröfurnar og allt í kringum það og Vestmannaeyjar. Við vorum búin að fallast á að Vestmannaeyjar yrðu áfram sérstakt umdæmi sýslumanna. En mikið er talað um það hér í frumvarpinu og rætt um það að ástæðan fyrir möguleikum á sameiningum eru breyttar samgöngur, breytt tækni, breytt umhverfi í landinu í heild. Þá þurfum við aftur, sem ég var að ræða hér áðan, að tryggja að þessi tækni sé nýtt í báðar áttir. Þrátt fyrir að menn séu að tala um tækni, sameiningu, bættar samgöngur o.s.frv. þá er stundum eins og allt endi hér í Reykjavík.

Við höfum góð dæmi um þjónustu sem veitt er úti á landi, t.d. innheimtustofnunin á Blönduósi, sem virkar mjög vel, gengur vel að manna. Þau eru með gott starfsfólk, stabílan vinnukraft og gætu tekið að sér miklu fleiri verkefni sem í dag er sinnt á höfuðborgarsvæðinu. Þar með nýtum við eignir og tryggjum að ekki sé verið að stofna til fjárfestinga með því að flytja heilu hópana á milli landsvæða eins og við sjáum í sambandi við sjávarútveginn. Ég ítreka það sem kom fram, einn af köflunum í nefndarálitinu er einmitt nýtt ákvæði til bráðabirgða þar sem nefndin ætlast til og samþykkir að gerð verði aðgerðaáætlun um flutning á þessum verkefnum til héraðanna samhliða þessum breytingum og að menn standi við það að starfsstöðvarnar verði starfræktar áfram og löglærður maður verði á hverri starfsstöð.