143. löggjafarþing — 102. fundur,  2. maí 2014.

framkvæmdarvald og stjórnsýsla ríkisins í héraði.

250. mál
[12:58]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið. Það sem ég er svolítið að velta fyrir mér í þessu öllu saman er hvernig við getum haft þetta eins skýrt og mögulegt er.

Nú er þetta lögreglan sem við erum að ræða og það er mjög mikilvægt að athuga þessi gögn, að mínu mati, hjá starfsmönnum lögreglunnar. Þótt ótrúlegt megi virðast kemur það fyrir að ég er ósammála Persónuvernd og ég er ósammála einu sem kemur fram í erindi hennar. Hún stingur upp á því að einungis megi leita upplýsinga um ákveðna starfsmenn, þ.e. lögreglumenn eða þá sem hafa valdheimildir en ekki til dæmis um ræstingafólk eða þá sem vinna í eldhúsinu. Ég er ósammála því. Segjum sem svo að dæmdur fíkniefnasmyglari sæki um starf sem ræstitæknir, það er alveg hægt að misnota þá aðstöðu þótt því fylgi ekki vald, þetta er jú lögreglan sem við erum að tala um, með fullri virðingu fyrir henni.

Ég velti hins vegar fyrir mér við nánari skoðun á þessu, og það er kannski eitthvað sem við hefðum átt að ræða í nefndinni svona eftir á að hyggja, fólk þarf að vera meðvitað um að þessara upplýsinga sé leitað. Það er alveg eðlilegt að biðja fólk um að skila sakavottorði. Það fer þó auðvitað eftir störfum og er kannski ekki alltaf eðlilegt, eða vissulega ekki alltaf, en stundum er það fullkomlega lögmætt. Ég hef unnið slíkt starf sjálfur, þar sem ég hafði aðgang að gögnum þess eðlis að mér þótti alveg eðlilegt að skila inn sakavottorði. En hérna erum við í raun og veru að veita heimild til þess að fara beint í skrána án þess að tekið sé skýrt fram að viðkomandi skuli upplýstur um það eða að hann hafi andmælarétt eða nokkurs konar skýringarétt. Ég velti fyrir mér hvort kannski sé við hæfi að við setjum fyrirmæli í lögin um að sett sé í reglugerð hvernig þeim málum skuli (Forseti hringir.) háttað, þannig að fólk sem leitað er upplýsinga um (Forseti hringir.) sé alla vega meðvitað um hvað sé í gangi.