143. löggjafarþing — 102. fundur,  2. maí 2014.

framkvæmdarvald og stjórnsýsla ríkisins í héraði.

250. mál
[13:32]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér tvö frumvörp, annars vegar um framkvæmdarvald og stjórnsýslu ríkisins í héraði, og hins vegar um breytingu á lögreglulögum, með síðari breytingum, fækkun lögregluumdæma, aðskilnað embætta lögreglustjóra og sýslumanna og hæfniskröfur.

Hv. þingmaður og formaður nefndarinnar, Unnur Brá Konráðsdóttir fór hér ágætlega yfir sameiginlegt nefndarálit allra nefndarmanna. Það er við hæfi að byrja þessa yfirferð á að þakka fyrir afar góða vinnu í nefndinni því þetta er hvorki lítið né einfalt mál heldur flókið mál þar sem voru gríðarlega mörg álitamál á ferð. Það var vel að verki staðið að leiða álitamál til lykta þannig að niðurstaðan yrði farsæl fyrir alla þá sem í nefndinni sitja. Það skiptir afar miklu máli þegar um er að ræða mál af þessum toga sem á sér töluvert langa forsögu og í þessu máli hefur verið unnið lengi. Eins og hv. þingmaður nefndi í framsögu sinni er það nánast æskuminning sumra okkar hér að talað hafi verið um að fækka sýslumannsembættum. Niðurstaðan er farsæl að því er varðar frumvörpin sem hér eru lögð fram til umfjöllunar og þær breytingartillögur sem nefndin sammæltist um að gera á þeim.

Að sama skapi er það svo, og við höfum aðeins komið að því í andsvörum, bæði hv. þm. Guðbjartur Hannesson og við sem fórum í andsvar við ræðu hans, að það sem er að nokkru leyti skilið eftir, ef svo má að orði komast, og heyrir svo sem ekki til verkefnis okkar þingmanna, er framkvæmdin og innleiðingin. Þar eru ýmis krefjandi viðfangsefni sem gætu orðið snúin. Má sérstaklega nefna þá þætti sem lúta að því hvernig einstök embætti eru staðsett innan sveitarfélaga og hvernig sveitarfélögum á að takast að koma sér saman um þá þætti. Við höfum auðvitað til þess væntingar að sú framkvæmd verði farsæl. Nefndin fékk á sinn fund bæði Samband sveitarfélaga og landshlutasamtök sveitarfélaga og menn höfðu uppi áform um að leysa þetta allt saman farsællega en eins og við vitum eru úrlausnarefnin að þessu leytinu til kannski einfaldari þegar um þau er rætt heldur en þegar kemur að því að takast beinlínis á við þau.

Ég held að það sé afar mikilvægt fyrir okkur, ekki bara okkur í nefndinni heldur almennt fyrir þingið, að fylgjast vel með framvindu slíkra verkefna. Það er miklu meira undir í svona vinnu heldur en bara sú löggjöf sem um er rætt. Hér er í raun og veru verið að tala um einn anga byggðastefnu á Íslandi, einn anga sem lýtur að áætlanagerð um sókn, uppbyggingu og þróun byggðar á Íslandi. Þarna er líka komið nálægt sjónarmiðum sem lúta að skiptingu hlutverka milli ríkis og sveitarfélaga, tekjuskiptingunni, verkefnaflutningi. Síðast en ekki síst snertir það þátt sem hefur ekki mikið verið ræddur hér, þ.e. ekki undanfarin missiri, en það er sameining sveitarfélaga. Það er umræða sem kemur og fer og hefur gert afar lengi. Að jafnaði hafa sveitarfélögin sjálf tekið ákvörðun um það hvort þau vilji sameinast eða ekki, en það verður ekki fram hjá því litið að verkefnin sem sveitarfélögunum er ætlað að leysa eru sum hver orðin svo þung og krefjandi að sumum er það nánast um megn að gera það án þess að efna til samstarfs við aðliggjandi sveitarfélög og stíga þá nánast að segja fyrstu skrefin í áttina að sameiningu.

Þetta er nefnilega ekki bara smekksatriði, þetta snýst líka um jafnræði og öryggi borgaranna, að það sé í raun óháð því hvort maður býr í þéttbýlu og stóru sveitarfélagi eða í strjálbýlu og litlu að maður megi vænta þess að njóta sambærilegrar þjónustu og sambærilegra réttinda frammi fyrir sveitarstjórnarstiginu. Þetta er sífellt viðfangsefni, en ég sakna þess að sumu leyti, og nefndi það áðan í andsvari, að við ræðum þetta meira heildstætt. Tilhneigingin hefur verið sú að byggðaáætlun sé jafnvel rædd eins og tiltekið afmarkað og einangrað plagg þótt hún sé það sannarlega ekki. Við þyrftum kannski að vera með einhvers konar viðmið, skapalón eða útgangspunkta í byggðaáætlun sem við bærum að frumvörpum eins og þessum og tryggðum að þau rímuðu saman. Menn hafa áhyggjur af vissum ástæðum — sumir tala um að sporin hræði — af því að störf hafi tilhneigingu til að færast til Reykjavíkur. Menn hafa áhyggjur af því að tilhneigingin sé sú að embættum fækki úti á landi og menn segist ætla að efla eitthvað en meini svo ekkert með því og tveimur eða þremur árum síðar sé aftur dregið úr því. Menn geta nefnt dæmi um þetta. Það eru kannski ekki dæmin sem eru verst heldur sú tortryggni sem er orðin viðvarandi í samskiptum ríkis og sveitarfélaga að mörgu leyti, sérstaklega að því er varðar dreifðustu byggðir landsins.

Þetta er ekki meginviðfangsefni hér heldur koma frumvörpin sem hér eru til umræðu inn á þá meginþætti sem varða einfaldlega það hvernig við viljum að þróun byggðar verði í landinu. Þess vegna er það sérstakt fagnaðarefni í fyrsta lagi að hér skuli leidd til lykta með þverpólitískum hætti og í þverpólitískri sátt vinna sem á sér langa sögu, en ekki síður sú staðreynd að sú vinna hefur verið leidd fram í sterku samtali og miklu samráði við sveitarfélög úti um land. Ýmsar breytingar hafa verið gerðar á frumvörpunum í vinnu nefndarinnar í þéttu samráði við hlutaðeigandi sveitarfélög auk þess sem ráðherra málaflokksins hefur farið víða og kynnt þessi áform og náð samhljómi jafnframt. Þetta er óendanlega mikilvægt þegar um er að ræða meginkerfisbreytingu eins og þá sem hér er um að ræða.

Mig langar að nefna nokkur atriði til viðbótar. Það væri ankannalegt ef við kæmum hér hvert á fætur öðru og læsum upp sama nefndarálitið því við höfum öll kvittað undir það með ágætri samvisku, en mig langar að nefna þátt sem kom fram í samskiptum við nefndina sem var rödd stéttarfélaga. Honum er ágætlega haldið til haga í kafla sem heitir Ákvæði til bráðabirgða og er um verkefnisstjórn sem hafi með höndum undirbúning þeirra breytinga sem mælt er fyrir um í frumvarpinu og varðar þá eftirfylgni sem ég ræddi hér lítillega áðan. Það lýtur að mikilvægi þess að huga sérstaklega að þeim starfsmönnum sem starfa hjá embættunum.

Fram hefur komið að leitast verður við að enginn núverandi starfsmanna missi starf sitt við þessar breytingar. Hér er auðvitað um að ræða mjög mikilvæga þætti sem varða réttindi starfsmanna. Það er álit nefndarinnar eins og kemur fram í nefndaráliti að mikilvægt sé að starfsmenn embættanna séu hafðir með í ráðum við breytingarnar í sérhverju skrefi. Mælist nefndin til þess að verkefnisstjórnin sem skipuð hafi verið hafi samráð við hlutaðeigandi stéttarfélög við undirbúning sameiningarinnar. Þótt við vitum þetta hefur framkvæmdin tekist misvel, stundum hefur þetta verið gert vel en stundum síður. Við sjáum alveg samhljóm milli þess að þegar vel tekst til gildir það að starfsmenn sjálfir hafa verið hafðir með í ráðum og stéttarfélög þeirra hafa haft fullan aðgang að gagnsæju ferli. Þetta er afar mikilvægt og ég vildi halda þessu sérstaklega til haga.

Annar þáttur er mér líka ofarlega í huga og ég vil þakka sérstaklega fyrir það hvernig sá þáttur var afgreiddur í nefndaráliti, það eru kynjasjónarmiðin. Í nefndarálitinu kemur eftirfarandi fram, með leyfi forseta:

„Nefndin kynnti sér efni skýrslu sem unnin var fyrir ríkislögreglustjóra um vinnumenningu og kynjatengsl lögreglunnar. Það er mat nefndarinnar að staðið skuli að ráðningum á faglegan hátt og á með jafnréttissjónarmið að leiðarljósi, sbr. ákvæði jafnréttislaga, nr. 10/2008, þannig að gætt sé að jafnri stöðu karla og kvenna við ráðningar.“

Hér er um að ræða þátt sem er afar mikilvægt, ekki bara að okkar mati heldur líka ýmissa þeirra gesta sem komu á fund nefndarinnar, að sé sagður með skýrum hætti þegar unnið er að því að loka svo viðamikilli löggjöf á 21. öldinni. Skýrslan er fyrir hendi en það sem meira er er að hér er um að ræða mjög viðkvæmt samspil kynja og valda, opinbers valds sem skiptir miklu máli að búi yfir skilningi á ólíkum kynjasjónarmiðum. Það gladdi mig mikið að nefndin skyldi vera svo einhuga sem hún reyndist vera í þessu efni. Stundum hefur verið tekist á um þessa þætti í stjórnmálum en það var ekki gert í nefndinni að þessu sinni, enda tel ég að skýrsla sú sem vísað er til í nefndaráliti sé einfaldlega það skýr og afgerandi að ekki verði við það unað að bregðast ekki við. Ég held að margir hafi einmitt verið býsna slegnir yfir því hversu afgerandi skýrslan var á sínum tíma. Ég vildi nefna þetta atriði sérstaklega og þakka fyrir þessa vinnu og nálgun.

Ég vil líka nefna til viðbótar þátt sem lýtur að Lögregluskóla ríkisins. Hv. þm. Guðbjartur Hannesson sagði svo sem það sem ég vildi sagt hafa í þeim efnum, en ég vil þó bæta við að með bráðabirgðaákvæðinu sem nefndin leggur til er stigið mjög mikilvægt skref. Þar er ráðherra falið í samráði við hlutaðeigandi að setja á laggirnar starfshóp í því skyni að koma á samstarfi við starfandi menntastofnanir í almenna kerfinu og horfa sérstaklega til sjónarmiða varðandi háskólamenntun. Hópurinn skili tillögu ásamt greinargerð ekki síðar en 1. ágúst 2014.

Hér er stigið mikilvægt skref og að mörgu leyti tekur nefndin ákvörðun um að stíga ákveðnara skref en lagt var upp með í frumvarpinu frá ráðherra. Það var gert í góðu samráði. Ég held að við hefðum jafnvel getað stigið ákveðnara skref áfram en það er alltaf álitamál hvort maður eigi að stíga svo langt skref áfram að maður lendi í því að hrökkva til baka. En ég held að þetta skref sé mikilvægt og þetta er sannarlega bráðabirgðaákvæði og þarna er um að ræða starfshóp sem mun skila sinni vinnu.

Ég held að það sé mikilvægt að lögreglumenntun sé samtvinnuð annarri menntun í landinu og heyri undir ráðuneyti menntamála í fyllingu tímans. Það held ég að verði þróunin. Hversu hröð hún verður eða hversu hratt henni vindur fram leiðir tíminn einn í ljós. Ég held samt sem áður að þetta sé afar mikilvægur þáttur, ekki síst vegna þess að samfélagið er farið að þróast þannig að miklum mun algengara er orðið að menn skipti um starfsvettvang á ævinni og hafi áhuga á því að þróa sig í starfi og jafnvel skipta um braut. Þá skiptir máli að menntunin sé samræmanleg; einingar, kerfi og slíkir formlegir þættir séu samræmanlegir og samrímanlegir, og að lögreglumenntun sé á pari við aðra formlega menntun í landinu. Þetta snýst í raun um að færa lögreglumenntunina til nútímans og margar og sterkar raddir úr þeim geira hafa einmitt kallað eftir því.

Mig langar líka, virðulegi forseti, að nefna hér kafla um greiningardeild. Samkvæmt 4. gr. frumvarpsins er lagt til að ákvæði 5. mgr. 8. gr. lögreglulaga verði felld brott, en þar er heimild til að koma á fót greiningardeild við einstök embætti lögreglustjóra sem leggi mat á hættu af hryðjuverkum og skipulagðri glæpastarfsemi. Við ræddum það nokkuð í nefndinni hvort rétt væri að halda þessari heimild til haga í ljósi vaxandi vanda að sumu leyti vegna skipulagðrar glæpastarfsemi. Við vorum sammála því að rétt væri að halda tillögunni í upphaflega frumvarpinu til haga og fella heimildina brott, en jafnframt að skýra vel í nefndaráliti frá þeim skilningi nefndarinnar að breytingin dragi ekki úr starfi lögregluliða á þessu sviði, enda er ómetanleg og þörf samvinna þeirra við greiningardeild ríkislögreglustjóra til að sporna gegn hryðjuverkum og skipulagðri glæpastarfsemi. Þetta taldi nefndin að höfðu samráði við þá sem gerst til þekkja vera góða, skynsamlega og gagnsæja leið til að vinna með nákvæmlega þennan vinkil í þróun lögregluembætta hér á landi.

Mig langar í lokin á þessari ræðu að nefna sjónarmið sem ég vék að áðan og lúta að þjónustunni úti um allt land og návígi við íbúana. Ég tel að við eigum mjög langt í land að horfa á það nægilega heildstætt, þ.e. hversu mikla fjarlægð er ásættanlegt að fólk búi við frá hinni ýmsu þjónustu sem samfélagið á að bjóða upp á. Þá dugar ekki bara að setja málband á kortið því stundum er yfir fjallvegi að fara og erfiðar leiðir, stundum eru leiðirnar greiðari. Stundum gilda ein sjónarmið að sumarlagi en kannski einhver allt önnur að vetrum. Þá er ég ekki bara að tala um heilbrigðis- og menntaþjónustu, þann hluta opinberrar grunnþjónustu, heldur líka þjónustu ríkisins í héraði.

Það skiptir mjög miklu máli fyrir öryggi borganna að þetta sé sett fram með gagnsæjum hætti því það er eiginlega stærsta viðfangsefni okkar í byggðastefnu að útrýma tortryggni. Ég sat sjálf í stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga í nokkur ár áður en ég bauð mig fram til þings. Það sem var mér eiginlega mesta umhugsunarefnið var hversu djúpstæð þessi tortryggni var. Í stað þess að ríkisvaldið og sveitarfélögin væru einfaldlega bak í bak, eins og má að orði komast, eða arm í arm, kannski væri betra að orða það þannig, ríkti tortryggni. En þarna er einfaldlega um að ræða tvær hliðar hins opinbera, á báða vegu eru kjörnir fulltrúar sem hafa það hlutverk að innheimta opinber gjöld og ráðstafa þeim með sem skynsamlegustum og bestum hætti fyrir samfélagið í heild. Þetta eru nákvæmlega sömu viðfangsefnin í raun og ættu ekki að skapa tortryggni, en hafa því miður gert það.

Þess vegna finnst mér gott að heyra, þótt það hafi kannski ekki verið tónninn í byrjun eftir ríkisstjórnarskipti, að menn ætli að endurvekja sóknaráætlanirnar. Það er gríðarlega mikilvægt verkfæri sem var kynnt til sögunnar eftir hrun, einungis með jákvæða hluti að leiðarljósi. Það snerist um að stilla saman strengi ríkis, sveitarfélaga, einstaklinga, félagasamtaka og atvinnulífs í hverju héraði fyrir sig og að valdið og ákvörðunartökuferlið væri heima í héraði, þ.e. menn settust þar yfir kosti og galla og sóknarfæri o.s.frv., og forgangsröðuðu þeim saman á heimavelli af þeirri þekkingu, innsæi og visku sem er sannarlega fyrir hendi á hverju svæði fyrir sig. Það væri svo okkar sem erum frekar á miðlægu stöðunum að taka við þeirri forgangsröðun og sjá til þess að henni væri síðan komin til framkvæmda.

Þessi vinna var ekki síður mikilvæg vegna þess að hún var þverpólitísk og margir sveitarstjórnarmenn um allt land tóku þátt í þeirri vinnu og að ég held fulltrúar allra flokka á þingi. Það væri mjög mikilvægt að okkur lánaðist einu sinni að vera með verkfæri sem lifði af pólitískar sveiflur, sem lifði af ríkisstjórnarskipti o.s.frv. Við værum með verkfæri sem íbúar landsins gætu treyst að væri fyrir hendi og væri til áfram þótt ný ríkisstjórn tæki við. Sóknaráætlun er viðfangsefni og verkfæri sem ég held að væri mikilvægt að nýta og þróa jafnvel enn þá meira, líka með hliðsjón af verkefnum eins og hér eru til umræðu. Þetta verkfæri gæti að mínu mati hjálpað (Forseti hringir.) okkur til að ná farsælli lausn í fleiri verkefnum en þeim sem upphaflega voru hugsuð undir þeim hatti.