143. löggjafarþing — 102. fundur,  2. maí 2014.

framkvæmdarvald og stjórnsýsla ríkisins í héraði.

250. mál
[13:52]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir tölu hennar og tek undir með henni að það er gott þegar víðtæk samstaða næst um svona mikilvæg mál, en það breytir því ekki að einstaka spurningum er ósvarað og það skiptir máli þegar verið er að gera svona breytingar að fólk fái sem skýrust svör fyrir fram.

Ég hef ekki tekið þátt í vinnu í nefndarinnar og langar því til að fá að heyra frá hv. þingmanni, af því að í 2. gr. frumvarpsins er talað um að ráðherra ákveði í reglugerð hvar aðalskrifstofur sýslumanna skuli staðsettar: Hvernig sjá menn það fyrir sér? Nú er verið að sameina öll sýslumannsembættin á höfuðborgarsvæðinu. Sýslumannsembættið í Hafnarfirði og í Kópavogi hafa verið mjög mikilvægir vinnustaðir í þessum sveitarfélögum, svo ég nefni dæmi. Hvaða skilaboð hafa þeir sem unnið hafa að málinu til þeirra sem þarna starfa um breytingar á högum þeirra? Sama á við um sýslumannsembætti víðar um landið. Getur hv. þingmaður gefið mér einhverja mynd af því?

Í öðru lagi langaði mig að spyrja um 3. gr. þar sem fjallað er um skipan ráðherra á sýslumönnum til fimm ára. Þar eru eðlilega gerð ákveðin hæfisskilyrði sem skipta máli að mínu mati. En af hverju þurfa menn að setja í lög að maður þurfi að hafa náð 30 ára aldri til að sækja um embættið? Er það ekki barn síns tíma að setja einhver aldursviðmið inn í lagafrumvörp? Ég velti því fyrir mér hvort það sé ekki óþarft? Ef menn eru hæfir á annað borð eru þeir hæfir óháð aldri. Maður getur verið 28 ára, maður getur verið 58 ára, það skiptir engu máli ef maður er hæfur. Mig langar að spyrja hv. þingmann að þessu.