143. löggjafarþing — 102. fundur,  2. maí 2014.

framkvæmdarvald og stjórnsýsla ríkisins í héraði.

250. mál
[14:27]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni svarið. Ég held að við séum á svipuðum stað í þessu efni. Ég held þó að það sé afar mikilvægt að lögreglunámið sé samþættanlegt annarri menntun í landinu. Eins og fram kom áðan verður það sífellt algengara að fólk skipti um starfsvettvang jafnvel oftar en einu sinni og oftar en tvisvar og þá er mikilvægt að menn séu ekki staddir í blindgötu með menntun sína. Eins og ég skil hv. þingmann þá er hann á því að námið sé meira inni í almenna skólakerfinu en þó með aðkomu þeirra sem best til þekkja, eins og af sjálfu leiðir.

Við vorum áðan að tala um togstreitu og tortryggni og þessi togstreita hefur líka verið fyrir hendi eins og til að mynda varðandi landbúnaðarmenntun og fleiri sérgreinar, en upphaflega hefur menntunin þróast í samhengi við greinina sjálfa en síðan hefur hún farið undir menntamálaráðuneytið í fyllingu tímans. Það hefur verið tilhneigingin.

Það er því nokkuð sem ég mundi halda að væri tilhneigingin líka þegar lögreglumenntun er annars vegar þó að hún yrði í nánum tengslum við fagið. Ég held að við séum sammála um það.

Mig langar til að spyrja hv. þingmann, vegna þess að hann hefur látið sig þessi mál varða sérstaklega, varðandi símenntunarmöguleika lögreglumanna í embættum: Hvaða möguleika hafa þeir til þess að halda sér við í starfi og hvaða þætti þarf helst að hafa þar í huga? Samfélagið verður sífellt fjölbreyttara og meira krefjandi og lögreglumenn þurfa að takast á við margháttaðri viðfangsefni en þeir þurftu fyrir bara 10, 15, 20 árum. Hvaða áherslur eigum við að leggja í því varðandi aðgengi og innihald?