143. löggjafarþing — 102. fundur,  2. maí 2014.

framkvæmdarvald og stjórnsýsla ríkisins í héraði.

250. mál
[14:29]
Horfa

Páll Valur Björnsson (Bf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessa spurningu. Símenntun er eitt það mikilvægasta fyrir allar starfsstéttir og starfsþróun verður alltaf í öllum störfum, þau þróast. Ég get nefnt kennarastarfið, það er í stöðugri þróun. Það er gríðarlega mikilvægt fyrir alla. Lögreglan er t.d. mikið í félagslegum málum og þarf að takast á við gríðarlega erfið mál og við í hv. allsherjar- og menntamálanefnd búum nú að því að hafa lögreglumann með mikla reynslu í nefndinni sem hefur sagt okkur frá mörgu sem hann hefur þurft að ganga í gegnum í starfi sínu. Það segir mér að menn þurfa að takast á við gríðarlega erfið verkefni þar. Auðvitað þurfa menn að vera stöðugt í þróun og símenntun, eins og hv. þingmaður kallar það, og mennta sig til að geta tekist á við ólík verkefni.

Hv. þingmaður nefndi menntamálaráðherra, ég gæti vel hugsað mér að þetta mál færi undir menntamálaráðuneytið, en auðvitað þyrftu fagmenn að leggja línurnar í náminu. Eins og hv. þingmaður nefndi varðandi Landbúnaðarháskóla Íslands virðist þróunin alls staðar í kringum okkur vera sú að námið fer inn í háskóla til þess að auka faglega þáttinn enn þá meira og eins rannsóknir. Ég get alveg séð það fyrir mér í sambandi við lögreglustarfið og annað, það þarf að halda rosalega vel utan um það, þetta er gríðarlega erfitt og krefjandi starf og menn þurfa að vera stöðugt á tánum, og eins og með menntunina, það er mikilvægt að menn hafi möguleika til að mennta sig meira og jafnvel með starfi. Ef þeim skyldi nú detta í hug að hætta í lögreglunni hafa þeir þá einhvern möguleika að fara eitthvert annað, jafnvel í eitthvað tengt lögreglumálum eða annað, og þá kemur símenntunin mjög sterkt inn eins og í öllu öðru í rauninni.