143. löggjafarþing — 102. fundur,  2. maí 2014.

framkvæmdarvald og stjórnsýsla ríkisins í héraði.

250. mál
[14:34]
Horfa

Páll Valur Björnsson (Bf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Já, ég þakka hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni fyrir þessa spurningu og þakka honum fyrir áminninguna. Ég er ekkert að segja að ég kitli pinnann mikið, ég tók þetta svona sem dæmi. Við erum svolítið í því, Íslendingar, og maður upplifir það úti á þjóðvegum, að keyra dálítið hratt. Nema kannski í Húnavatnssýslu, þar eru lögreglumennirnir mjög sýnilegir. Það var það sem ég meinti. Ef lögreglan er sýnilegri fer umferðarhraðinn niður, það er bara þannig. Það var það sem ég meinti. En við sem setjum lögin eigum náttúrlega að fara eftir þeim, það er náttúrlega lykilatriði. (Gripið fram í: Það er betra.) Það er betra sko, það er miklu betra.

Hvað varðar ríkislögreglustjórann og lögreglustjórann í Reykjavík, þetta er bara mjög góð spurning og kom fram hér áðan. Ég nefndi það í ræðu minni að þetta hefði verið sú spurning sem kom upp, bæði hér í dag, áður í andsvörum og síðan í nefndinni. Ég tel þetta alveg einnar messu virði og er sammála þingmanninum um að auðvitað ætti að skoða það ef engin þörf er á þessu og ef þetta er ekkert nema peningaaustur.

Það kom líka fram, meðal annars í viðræðum okkar við bæjarstjórnarmenn, og ég nefndi það hér áðan í andsvari við hv. þm. Svandísi Svavarsdóttur, að Elliði Vignisson hefði talað um að við gætum verið með einn sýslumann á öllu Stór-Reykjavíkursvæðinu. Þá var hann að tala um frá Borgarnesi, frá Hvítá í Hvítá. Það er kannski eitthvað sem við getum skoðað í framhaldinu. En það er mjög gott ef við náum þessu núna, sem fyrsta skrefi. Þetta hefur verið í umræðunni, eins og hv. þingmaður sagði, frá því hann byrjaði sem þingmaður og það er nú lengra síðan en elstu menn kæra sig um að muna.