143. löggjafarþing — 102. fundur,  2. maí 2014.

framkvæmdarvald og stjórnsýsla ríkisins í héraði.

250. mál
[14:39]
Horfa

Elsa Lára Arnardóttir (F):

Hæstv. forseti. Hér ræðum við frumvarp til laga um framkvæmdarvald og stjórnsýslu ríkisins í héraði og um frumvarp til laga um breytingu á lögreglulögum, þ.e. fækkun lögregluumdæma, aðskilnað embætta lögreglustjóra og sýslumanna og hæfniskröfur. Frumvörp þessi hafa farið í gegnum mikla vinnu allsherjar- og menntamálanefndar og ræðum við jafnframt nefndarálit nefndarinnar.

Ég vil taka undir orð þeirra nefndarmanna í allsherjar- og menntamálanefnd sem hér hafa talað í dag og vekja athygli á þeirri góðu vinnu og þeirri miklu samstöðu sem var innan nefndarinnar við vinnslu þessara frumvarpa.

Eins og fram hefur komið í umræðunni er meginmarkmið frumvarpanna að efla lögregluna og sýslumannsembættin og gera þau betur í stakk búin til að sinna lögbundnum skyldum sínum. Það felur í sér fækkun lögreglu- og sýslumannaembætta og aðskilnað milli embætta lögreglustjóra og sýslumanna. Þannig verða löggæsla og ákæruvald skilið frá starfsemi sýslumanna og færð til sjálfstæðra embætta lögreglustjóra. Frumvörpin sem rædd eru hér miða að sama markmiði og því er tilvalið að taka þau saman til umræðu þar sem þau eru mjög háð hvort öðru.

Vert er að nefna að unnið hefur verið að heildarskipulagningu og framtíðarstefnumótun í málefnum sýslumanna og lögregluembætta um margra ára skeið og flestir umsagnaraðilar er komu á nefndarfundi allsherjar- og menntamálanefndar voru sammála um að nú væri kominn tími á að hrinda breytingunni í framkvæmd. Almenn sátt virtist vera orðin um heildarmarkmið laganna.

Virðulegur forseti. Í frumvörpunum og breytingartillögunum kemur fram að umdæmamörk lögregluembætta skuli ákveðin í reglugerð sem ráðherra setur með hliðsjón af skipulagi annarrar opinberrar þjónustu í umdæminu í samráði við stjórn viðkomandi embætta, Samband sveitarfélaga og hlutaðeigandi landshlutasamtök. Það er mjög mikilvægt að þetta samráð sé haft á milli þeirra aðila sem að ofan eru tilgreindir. Þannig ná sjónarmið allra að komast á framfæri og þær áherslur og óskir sem uppi eru um umdæmaskiptingu og staðsetningu sýslumannsembætta og lögregluembætta. Þeim sjónarmiðum hefur verið komið á framfæri við nokkra hv. þingmenn í allsherjar- og menntamálanefnd að lögregluembættið á Höfn í Hornafirði haldi samstarfi sínu áfram austur á firði og verði því sameinað þeim embættum sem þar eru. Helsti rökstuðningurinn sem hv. þingmenn nefndarinnar hafa fengið í þeim efnum var sá að gott samstarf hefur verið við lögregluumdæmin á Austfjörðum og einnig er mun styttra í næsta þéttbýliskjarna í austurátt en í suður, en rétt rúmir 100 kílómetrar eru austur á Djúpavog og um 200 suður á Kirkjubæjarklaustur frá Höfn í Hornafirði. Þessi mismunur á vegalengd getur munað miklu þegar á liðsauka þarf að halda eða einhvers konar annarri þjónustu eða hjálp.

Í frumvarpinu er gert ráð fyrir því að landið skiptist í átta lögregluumdæmi en umdæmi sýslumanna verði níu, þ.e. í Vestmannaeyjum verði sýslumannsembætti en ekki lögregluembætti. Á fundi allsherjar- og menntamálanefndar kom fram gagnrýni á þá fyrirætlan sem frumvarpið felur í sér. Fram kom á fundi nefndarinnar að Vestmannaeyjar hafa sérstöðu umfram aðra landshluta þegar kemur að samgöngum. Bent var á að þegar best lætur liggja samgöngur niðri hálfan sólarhringinn, þ.e. hvorki er siglt né flogið. Nefndin ræddi þetta nokkuð og er það álit hennar að vegna hinnar sérstöku aðstæðna Vestmannaeyinga í samgöngumálum sé rétt að Vestamannaeyjar verði sjálfstætt lögregluumdæmi og leggur nefndin fram breytingartillögu þar um.

Í þessu samhengi er samt sem áður nauðsynlegt að benda á að eylöndin eru nokkur hér á Íslandi ef við horfum á það út frá samgöngum. Þar getum við meðal annars nefnt sunnanverða Vestfirði, Seyðisfjörð, jafnvel Höfn í Hornafirði þar sem langt er í aðra þéttbýliskjarna og eins og á sunnanverðum Vestfjörðum er oft á tíðum vegurinn lokaður, þungatakmarkanir á veginum og margt fleira sem getur komið upp á.

Þar sem ástandið er með þessu móti, þar sem erfiðar samgöngur eru til og frá ýmsum byggðarlögum og ef við horfum á ýmis byggðasjónarmið líka er mikilvægt að löglærður fulltrúi verði á þeim stöðum þar sem enginn sýslumaður verður. Ég vil ekki taka afstöðu til þess hvar löglærðir fulltrúar eiga að vera. Maður vill ekki ákveða það hér og nú, vegna þess að það er ekki í okkar höndum að ákveða hvar þessi embætti verða eða starfsstöð þeirra, og ekki tilgreina neinn ákveðinn stað heldur segja að þar sem þeir verða ekki þar verði löglærður fulltrúi. Það er nauðsynlegt meðal annars vegna flutnings verkefna frá innanríkisráðuneyti til embætta úti á landi þannig að öll byggðarlög eigi jafna möguleika á að taka á móti þessum verkefnum og við verðum jafnframt að horfa á að samgöngurnar eru erfiðar og mikilvægt að allir hafi greiðan aðgang að þeirri þjónustu sem sýslumannsembættin veita.

Eins og fram kom í upphafi ræðunnar og hérna rétt áðan gera frumvörpin ráð fyrir að hin sameinuðu sýslumannsembætti verði betur í stakk búin til að taka við þeim auknu verkefnum sem til stendur að flytja frá innanríkisráðuneytinu út á land. Það kemur fram í frumvörpunum að skrifstofur verði áfram opnar, þær skrifstofur sem eru sýslumannsskrifstofur í dag, og mjög nauðsynlegt er til að styrkja þær að verkefnin fari frá innanríkisráðuneytinu til þessara skrifstofa til að halda úti öflugri starfsemi í byggðum landsins. Þar kemur maður aftur inn á það að mjög mikilvægt er að löglærður fulltrúi verði til staðar.

Á fundum nefndarinnar var einnig bent á að öruggt netsamband er ein af nauðsynlegum forsendum þess að samstarf skrifstofa innan sama sýslumannsembættis gangi greiðlega og á það að sjálfsögðu einnig við um möguleika embætta til að taka sér verkefni sem þjóna landinu öllu. Þá er ljóst að forsendur greiðs samstarfs innan og milli embætta eru að áfram verði haldið með endurskoðun og uppfærslu tölvukerfa embættanna. Við vitum að víða er pottur brotinn í netfjarskiptum eða fjarskiptamálum á landsbyggðinni og við verðum að horfa til þess að sýslumannsskrifstofur eða þau embætti og þær skrifstofur sem eru á landsbyggðinni hafi öruggan netaðgang til að taka við þeim verkefnum sem gert er ráð fyrir að fari frá innanríkisráðuneytinu út á land, þannig að allir sitji við sama borð og geti veitt sömu þjónustu og tekið við sömu gögnum og ætlast er til.

Virðulegur forseti. Mikilvægt er að minnast á í ræðunni að nú er það þannig að á nokkrum þeim stöðum þar sem í dag er sýslumaður tekur skipulag lögreglu mið af því og sums staðar er enginn lögreglumaður staðsettur og því engin lögreglustöð. Þetta gæti þýtt það að þegar embættin verða aðskilin gæti þurft að efla lögregluna á þeim stöðum.

Eins og fram hefur komið í ræðum nokkurra hv. þingmanna í dag er lagt til með frumvörpunum að unnin verði aðgerðaáætlun sem undirbúi breytingarnar sem mælt er fyrir í frumvarpinu og í breytingartillögu allsherjar- og menntamálanefndar. Þar er lagt til að í frumvarpið um framkvæmdarvald bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða sem kveði á um að við samþykkt frumvarpsins skuli innanríkisráðuneytið í samstarfi við forsætisráðuneytið vinna aðgerðaáætlun fyrir Stjórnarráðið þar sem afmörkuð verði þau stjórnsýsluverkefni ráðuneyta og undirstofnana þeirra sem talið er ákjósanlegt að verði flutt til embætta sýslumanna. Aðgerðaáætlun skal liggja fyrir eigi síðar en 1. janúar 2015 eða við gildistöku umdæmamarka sýslumannsembætta og lögregluembætta.

Það er sérstaklega ánægjulegt og því ber að fagna að verkefni verði færð út á land til að styrkja þau góðu embætti sem þar eru og þar munu starfa. Sem landsbyggðarþingmaður fagna ég því sérstaklega.