143. löggjafarþing — 102. fundur,  2. maí 2014.

framkvæmdarvald og stjórnsýsla ríkisins í héraði.

250. mál
[14:49]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Með fækkun lögregluembætta og sameiningu sýslumannsembætta erum við að tala um að verkefni dragist frá sýslumannsembættunum, sem fara nú með löggæslumálin, og að mikil breyting verði á starfsemi þeirra. Ég hef vissar áhyggjur af því, þar til niðurstaða er komin í þessi mál, hvar þessi embætti lenda innan svæða, hvar staðsetning þeirra verður og verkefnastaða. Sýslumannsembættin hafa verið að taka að sér fjölda verkefna sem hafa gengið mjög vel. Það hefur styrkt atvinnustig á þeim svæðum sem um ræðir og hefur leitt í ljós að störf án staðsetningar eiga vel við víða úti um land. Þau hafa verið að eflast en kannski var ákveðið vantraust í upphafi á að það gæti gengið að þetta væri langt frá stærstu stjórnsýslumiðstöðinni á höfuðborgarsvæðinu.

Telur hv. þingmaður að með einhverjum hætti megi færa til fleiri opinber störf til að styrkja þessar einingar? Það er oft í umræðunni að vegna smæðar ákveðinnar opinberrar stjórnsýslu úti um land séu rök fyrir því að leggja hana niður. Telur hv. þingmaður að horfa megi þverfaglega á fleiri greinar sem gætu komið til með að hafa samlegðaráhrif þegar þessar þjónustumiðstöðvar, þessi þjónustukjarni, verða reistar hvar sem þær lenda að lokum?