143. löggjafarþing — 102. fundur,  2. maí 2014.

framkvæmdarvald og stjórnsýsla ríkisins í héraði.

250. mál
[14:51]
Horfa

Elsa Lára Arnardóttir (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Lilju Rafneyju Magnúsdóttur fyrir andsvarið. Ég er henni hjartanlega sammála um að mörg góð og mikilvæg verkefni eru unnin hjá sýslumannsembættum víða um landsbyggðina. Varðandi áhyggjur hennar af því hvar þessar starfsstöðvar verði niðurkomnar þá kemur það fram í nefndaráliti, í frumvarpinu og í breytingartillögum að umdæmamörk lögregluembætta og staðsetning verði ákveðin í samráði ráðherra við stjórn viðkomandi embætta, í samráði við þá sem þar starfa og við samband sveitarfélaga og landshlutasamtök. Þarna verður mikið samstarf á milli þar sem starfsmennirnir, fulltrúi sveitarfélaga og hlutaðeigandi landshlutasamtök geta komið sjónarmiðum sínum á framfæri um það hvar starfsstöðvarnar skuli vera.

Í ræðu minni talaði ég um að þetta væri verkefni frá innanríkisráðuneytinu, en það eru jafnframt verkefni frá öðrum ráðuneytum sem munu færast, þegar lögin taka gildi, og ákveðið samráð hefur verið haft manna á milli, frá bæði innanríkisráðuneytinu og öðrum ráðuneytum, yfir til sýslumannsembættanna.